136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[15:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar venjulegt fólk á hinum almenna vinnumarkaði, 70% kjósenda okkar, 80% af kjósendum eða einhvers staðar þar á milli byrjar að fá skerðingar, þá vil ég gjarnan vera í þeim hópi. Ég tel rétt að við séum í þeim hópi kjósenda okkar sem lendir í þeim ósköpum. Breytingartillaga mín gengur út á það, eins og við erum margbúin að ræða í þessari umræðu, að þingmenn geti valið sér lífeyrissjóð að eigin vali og fái þá launauppbót sem nemur verðmæti réttindanna. Það kemur líka í veg fyrir alls konar spekúlasjónir um hvers virði þessi réttindi eru. Það kemur þá hreinlega í ljós og öll umræða um það verður dauð vegna þess að menn vita um hvað er að ræða en í dag veit það enginn.