136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[15:15]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er vont að mínu mati að við skulum ræða þetta mál hér í tímapressu þess að það eru að nálgast jól og tímapressu þess að við erum með fjárlögin undir og fjáraukalögin og ýmis gríðarlega stór mál sem við þurfum að afgreiða.

Ég vek sérstaka athygli á því, hæstv. forseti, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði hér áðan og í samhengi við það vil ég tengja það sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson sagði fyrir hádegið í ræðu þegar sem hann benti réttilega á að breytingar á lífeyrisreglunum gætu haft áhrif á niðurstöðu að því er varðaði laun alþingismanna, ráðherra og æðstu embættismanna.

Ég held að ég hafi tekið rétt eftir því að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson sagði að samkvæmt könnun þeirra í nefndinni þegar þau voru að vinna þetta mál væri mat þeirra að það væri 60% skerðing á réttindum ráðherranna og 20% skerðing á réttindum almennra þingmanna. Ég vona að ég fari rétt með, hæstv. forseti.

Nú er það svo að við vorum að samþykkja lög, hæstv. forseti, um skerðingu á launum þingmanna, breytingu þar sem við felum kjararáði að breyta launum þingmanna með fyrir fram ákveðnum prósentum á bilinu 5–15% til lækkunar, þ.e. kjararáð ákveður þingfararkaupið og samkvæmt því sem hér var samþykkt í gær — ég tel að hafi verið klaufaleg vinnubrögð að fara í þetta með þessu lagi og þar með ef til vill loka á þá vegferð sem við þurfum kannski að fara í á næsta ári, að búa til hátekjuskattþrep eða þrepaskipt skattkerfi til þess að ná í tekjur fyrir ríkissjóð, ekki bara af þeim hópum sem við erum hér að fjalla um heldur almennt af hátekjufólki í þjóðfélaginu eða fólki sem er með hærri tekjur.

Ég tel miklar líkur á því, hæstv. forseti, hvort sem okkur hv. þingmönnum líkar það betur eða verr að við munum þurfa að auka tekjur ríkissjóðs með öllum ráðum á næsta ári bæði með skattalagabreytingum og útfærslum að öðru leyti sem geta orðið til tekjuauka í þjóðfélaginu og þar með niðurskurði til þess að minnka útgjöld.

En þá vaknar spurning, hæstv. forseti. Þegar menn eru búnir að setja þau lög sem voru sett í gær og lækka laun þeirra hópa sem lögin um kjararáð ná til og það verður búið að framkvæma það — væntanlega verður það framkvæmt mjög fljótlega á næsta ári — telja menn þá líklegt að það verði einfalt að setja jafnframt á þrepaskipt skattkerfi eða hátekjuskatt ofan í það?

Ég held að í gær hafi Sjálfstæðisflokknum tekist að láta samþykkja hér mestu smjörklípu sem samþykkt hefur verið í lengri tíma vegna þess að þetta gerir það að verkum að þær útfærslur sem við gætum notað í skattkerfinu til að hlífa þeim lægst launuðu — að hafa þrepaskipt skattkerfi eða hátekjuskattþrep — það væri mun erfiðara að koma því á eftir að við erum búin að setja þessi lög því ekki verða þau sett þannig að þau nái bara til þeirra sem þessi lög um kjararáð ná ekki til. Ég held að það hefði verið miklu virkara fyrir framtíðina að geta horft á skattlagningu til þess að ná til allra sem hafa hæstu tekjurnar í þjóðfélaginu með það að markmiði að hlífa þeim lægst launuðu. Þetta vildi ég bara láta koma hér fram vegna þess að það mun líka koma að kjararáði að taka tillit til þeirra skerðinga sem verða ákveðnar núna í þessum lögum til hækkunar launa. Við vorum ekki að breyta neinu í þessum ákvæðum í gær varðandi lífeyrisreglur og lífeyrisgreiðslur eða mat kjararáðs á því þannig að kjararáð mun standa frammi fyrir því að endurákvarða þingfararkaupið til hækkunar út frá því sem verið er að gera hér. Ég vil benda á þetta samhengi, hæstv. forseti.

Ég vil einnig benda á að þegar sá úrskurður fellur, byggður á óbreyttum lögum um kjararáð, þá mun það ekki bara ná til alþingismanna, ráðherra og æðstu embættismanna. Það mun ná til allra sem eru hættir og farnir að nýta lífeyrisrétt sinn og rétt sinn því þeir hafa ýmsar viðmiðanir í þeim launum sem eru í gildi í þjóðfélaginu samkvæmt eldri lögum. Því er nú ekki víst að við séum að gera ríkissjóði mikinn greiða ef við flýtum okkur of mikið með þetta mál og vinnum það illa.

Það sem ég hef alltaf mest óttast, hæstv. forseti, er að þegar við setjum lög í svona flýti á síðustu dögum þings fyrir jólaleyfi eða síðustu klukkustundum áður en þingi lýkur að vori þá verða okkur á mistök. Ég tek undir það og er sammála því að fjalla um þessi lög og endurskoða þau með það að markmiði að færa þau réttindi í þá átt sem hér er verið að gera. En ég vara við því að gera það í fljótræði án þess að horfa á það hvaða raunverulegu afleiðingar fylgja þar á eftir.

Ég bendi einnig á það, hæstv. forseti, að tækjum við ákvörðun um að setja alla þingmenn og þessa hópa sem við erum hér að fjalla um beint inn í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins þá er sú regla sem hér er, um að menn megi ekki bæði taka lífeyri og laun, fallin. Þá er hún fallin. Það er bara hin almenna regla í lífeyrissjóðum, líka í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Ég segi það bara, hæstv. forseti, að mér finnst að við þurfum að vanda okkur mjög vel í þessu máli. Ég hef aldrei haft neinn beyg af því sem mér finnst stundum menn halda að Alþingi geti ekki vélað um sín eigin kjör. (Gripið fram í.) Ég tel að Alþingi eigi að geta vélað um sín eigin kjör á fullkomlega rökrænum grundvelli og farið skynsamlega í gegnum það hver launakjör okkar eigi að vera og það liggi opið fyrir þjóðinni, líka lífeyrisréttindin.

Ég er alls ekki fyrir fram að hafna því að gera þá breytingu að fara í A-deildina. Það kann vel að koma til greina að mínu viti. Þá verðum við bara að fara í gegnum þá rökræðu eins og hún er og kanna hvort einhverjar afleiðingar séu þar sem maður þarf sérstaklega að fjalla um. Ég sé að þá þarf meðal annars að breyta lögunum um kjararáð og fella þar út þær greinar sem víkja að lífeyrisréttindum manna, í lögunum um kjararáð. Ef menn ætla að fara þangað sem ég er ekkert að hafna ef menn skoða það bara gaumgæfilega. Ég tel hins vegar að það sem fram er sett hér varðandi stigaávinnsluna 2,37 sé í rökréttu samhengi við það að við borgum 5% í lífeyrissjóð. (Gripið fram í.) Ég tel að það sé.

Dregin hafa verið fram ýmis atriði í þessu máli sem mér finnst menn ekki alltaf hafa sett í samhengi og áttað sig á. Ég segi það, hæstv. forseti, að mér finnst liggja mikið við að við vöndum nú til þessa verks þannig að við komum ekki fram fyrir þjóðina með einhver mistök sem fara í allt annan farveg en við stefndum að og jafnvel auka heildarkostnað ríkissjóðs, þ.e. breyting á launakjörunum. Það getur gerst þegar Kjaradómur er búinn að kveða upp sinn dóm eftir lækkun lífeyrisréttinda. Þá getur það gerst að ríkissjóður standi frammi fyrir því vegna viðmiðunar þeirra sem hættir eru í starfi að kostnaðarpakki ríkissjóðs aukist en ekki lækki.

Ég segi það bara alveg eins og er, hæstv. forseti, að mér finnst sómi að því ef Alþingi tæki nú þá ákvörðun að segja: Heyrðu, hér liggur þetta mál. Látum það liggja þangað til í janúar og hefjum þá vinnu við það aftur. Förum í gegnum það. Förum í gegnum það bara á skynsemisnótum hægt og rólega og skoðum allar hliðar þess. Líka þá að fara inn í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Við veltum þá bara öllum málum upp með tengingum og afleiðingum og hvaða áhrif það hefur, skoðum það vandlega. Verum ekki að flaustra hér við eitthvað sem síðan reynist vera þannig að það er ekki eins og við ætluðum að gera það, kemur ekki þannig út. Það er örugglega ekki vilji eða mikið áhugamál alþingismanna í dag að auka á byrðar ríkissjóðs á komandi árum miðað við núverandi stöðu.

Hæstv. forseti. Ég er held ég búinn að segja megnið af því sem ég vildi sagt hafa í þessari umræðu. En það er hins vegar alveg rétt að ef við lítum á almenna vinnumarkaðinn, opinbera starfsmenn og á almenna vinnumarkaðinn, þá er það svo að lífeyrisréttindin hafa fæðst í gegnum kjarasamninga stétta í þessu landi, mismunandi starfsstétta með mismunandi áherslum og svo framvegis. Auðvitað hafa stéttarsambönd í þessu landi stuðlað að því hvernig lífeyriskerfið hefur þróast almennt í landinu og margt tekist þar vel. En ég vek athygli á því að í umræðum um lífeyrismál hefur verkalýðshreyfingin ekki flýtt sér í þeim málum. Hún hefur einmitt vandað vinnu sína í því, tekið sér tíma í þá umfjöllun. Það hefur ekki verið hrist fram úr erminni í kjarasamningum hvernig lífeyrismálum skyldi skipað. Menn hafa stigið þar skref fyrir skref og þróað lífeyriskerfið á undanförnum árum í þá veru sem það er í dag jafnt hjá opinberum starfsmönnum sem og almennu verkalýðshreyfingunni. Ég segi það alveg eins og er, hæstv. forseti, að ef einhvers staðar þarf að bæta í lífeyriskerfinu almennt þá tel ég það vera í hinum almennu lífeyrissjóðum þar sem þarf að huga að því að bæta stöðu fólks.

Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt fram alveg sérstakt þingmál sem miðar að því að launafólk sem tekur út úr almennum lífeyrissjóðum fái sérstakt frítekjumark á lífeyristekjur sínar. Það er erfitt að tala um það í því árferði sem fram undan er. Það mun kosta peninga. En ég tel að það sé réttlætismál, sérstaklega að því er varðar það fólk sem á í almennu lífeyrissjóðunum og er ekki að fá sambærileg kjör og margar aðrar stéttir í þjóðfélaginu. Ég vek athygli á þessu, hæstv. forseti, í þessari umræðu.

Hæstv. forseti. Ég vænti þess og vona satt að segja innilega að við berum gæfu til þess að flaustra ekki við þetta mál þannig að við fáum ekki þá niðurstöðu sem við helst vildum fá, þ.e. að lagfæra það sem óeðlilegt getur talist í þessu máli sem við erum að fjalla um og hefur verndað einhver sérstök réttindi sem ekki eru rök fyrir. En þá eiga menn auðvitað að ræða það í samhengi. Þeir eiga að ræða það í samhengi við laun og ræða það í samhengi við þau réttindi sem þeir vinna sér inn og það á að ræða það í samhengi við lögin um kjararáð og ræða það í samhengi við það hver verði kostnaður ríkissjóðs af breytingunni og hver réttindaávinnsla þeirra sem við eiga að búa verði, hver makalífeyririnn verði og svo framvegis. Allt þetta eiga menn að fara skipulega í gegnum og skoða vandlega og ég hvet til þess að við gerum nú ekki einhver þau mistök í þessu máli sem við hefðum gjarnan ekki viljað gera hér undir tímapressu þegar síðar kemur fram í málið. Mér finnst að nóg sé komið af því að föndra við þetta mál í tímapressu eins og gert var 2003.

Ég sagði áðan, hæstv. forseti, að ég hefði ekki mætt á neinn fund í ráðherrabústaðnum með Davíð Oddssyni eða öðrum forustumönnum ríkisstjórnarinnar þá um þetta mál, í desember 2003. Þannig er það. Davíð Oddsson hafði hins vegar samband við mig daginn áður en ég fór af landi brott og sagði mér að menn væru orðnir nokkuð sáttir við að ríkisstjórnin legði fram svona mál. Ég gerði ekki athugasemdir við að það yrði lagt fram og sagði þá: „Við munum þá að reyna að finna einhvern í okkar þingflokki til að mæla fyrir þessu máli.“ Og ég bað Sigurjón Þórðarson um að gera það þegar þetta mál kæmi fram, yrði tilbúið. Hvort einhver fundur var haldinn með öðrum foringjum stjórnarandstöðunnar um þetta mál í ráðherrabústaðnum er mér ekki kunnugt um. En svona var þetta í pottinn búið og ég þarf ekki að fela neitt í því. Og við eins og aðrir flokkar hér í þingi gengumst inn á það að þetta mál yrði flutt. Síðan kom auðvitað umræðan hér og málið inn í þingið eins og það var og þá sáu menn auðvitað í því mikla agnúa eins og það var í pottinn búið.

Ég hygg að við höfum ekki áttað okkur á því, alla vega gerði ég það ekki sérstaklega, að í því fælist önnur eins sérréttindi og voru færð sérstaklega að því er varðar forsætisráðherra á þessum tíma. En það breytir ekki því að við í Frjálslynda flokknum vorum einir af þeim sem fluttu þetta mál hér inn í þingið eins og allir aðrir stjórnmálaflokkar. En um það varð mikið ósætti í þinginu og þá sögu þekkja allir. Ég hygg að við sem hér erum núna, ég og Steingrímur J. Sigfússon, höfum sagt frá þessu máli eins og við vitum það sannast og rétt.