136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[15:33]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er gott að í þingsal sé mættur hæstv. forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins en mér þykir miður að hér sé ekki hæstv. utanríkisráðherra, formaður Samfylkingarinnar, vegna þess að þessir tveir oddvitar ríkisstjórnarflokkanna hafa einkum vélað um þessi mál sín í milli á undanförnum mánuðum og missirum eða allt frá því að ríkisstjórnin var mynduð. Ég óska eftir að þau boð verði færð hæstv. utanríkisráðherra að ég óski nærveru hennar hér við umræðuna.

(Forseti (KHG): Það verður gert. Þingmaðurinn hefur orðið.)

Ég veit að ég hef orðið og þakka hæstv. forseta fyrir það. Eins og ég gat um ætla ég að bíða eftir því að (Gripið fram í.) formaður Samfylkingarinnar komi. Ég óskaði eftir því hér áðan að bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra væru til staðar við umræðuna. Það er hæstv. utanríkisráðherra sem er að tefja málið.

(Forseti (KHG): Ráðherrann er genginn í salinn og bið ég þingmanninn um að halda áfram ræðu sinni.)

Ég þakka fyrir það. Við höfum hér orðið vitni að umræðu um eftirlaun þingmanna, ráðherra og svokallaðra æðstu embættismanna ríkisins. Stöku sjálfstæðismaður hefur tekið til máls og nefni ég þar sérstaklega hv. þm. Pétur H. Blöndal sem um langt árabil hefur látið sig þennan málaflokk miklu skipta og sýnt honum áhuga. Við erum ekki alltaf sammála í þeim efnum en hann hefur ævinlega komið málefnalega að þeirri umræðu. Fáir aðrir sjálfstæðismenn hafa tekið til máls í þessari umræðu.

Samfylkingarmenn hafa látið nokkuð að sér kveða, sérstaklega nú á síðustu metrunum. Það flögraði að mér að við þessa umræðu kynni Samfylkingin að hafa slegið þingmet í ómerkilegum málflutningi.

Hæstv. utanríkisráðherra, formaður Samfylkingarinnar, lét að því liggja að það væri henni að þakka að þessum málum skyldi nú hreyft. Hún ein, Samfylkingin ein, hefði andæft forréttindum í lífeyrismálum. Hún ein hefði flutt um þetta frumvörp, gert tillögur og andæft málinu. Klappað steininn, eins og hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir og gerir.

Þetta er nú ekki alveg rétt. Í fyrsta lagi hefur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lagt fram frumvarp um þetta efni og það hafa fleiri gert. Hv. þm. Samfylkingarinnar Valgerður Bjarnadóttir gerði það líka og við höfum mörg hver stutt það. Ég hef þó alltaf saknað þess að þeir sem voru meðflutningsmenn hennar létu málið til sín taka hér í þinginu. Ég varð þess aldrei var að hugur fylgdi máli eða menn reyndu að beita sér og berjast í málinu.

Á síðasta kjörtímabili var vísað í samkomulag sem menn höfðu þá gert. Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, leitaði á sínum tíma eftir samkomulagi um málamiðlun. Mér þótti það alltaf vera lýtaaðgerð á frumvarpinu gerð til að friðþægja fólki. Það voru svo mikil andmæli gegn þessu, reiði gagnvart því misrétti og misnotkun á valdi sem felst í að skapa sjálfum sér hér í þessum sal sérréttindi umfram það sem almennt gerist í þjóðfélaginu, að menn vildu grípa til einhverra ráðstafana.

Það samkomulag var aldrei í höfn en þegar menn töldu að hillti undir það minnist ég þess — og ég ætla bara að nefna það sögunnar vegna — að þá var komið til mín og ég spurður hvernig ég mundi taka þessu. Ég sagði: Komið endilega með slíkt frumvarp inn í þingið en ég vil að menn viti að ég mun gera breytingartillögu þess efnis að þessi hópur fari inn í A-deild LSR. Þá sögðu fulltrúar Samfylkingarinnar við mig með miklum þjósti: Ætlar þú að eyðileggja möguleika á einhvers konar samkomulagi? Þannig var viljinn á þeim bænum. Því vil ég segja þegar dregin er upp þessi ranga glansmynd af Samfylkingunni að þetta eru mikil ósannindi.

Hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra hafa síðan setið að þessum málum, vélað um þetta og tafið allar götur frá því þau settust í ríkisstjórn vorið 2007 og ætla núna að láta ný lög taka gildi næsta sumar. Það þýðir að þau hækka eigin réttindi um á milli 10 og 20 þús. kr. fyrir hvern mánuð sem líður nú þegar þau verða komin á eftirlaun. Þetta er það sem raunverulega er að gerast.

Síðan er það staðreynd sem menn verða að horfast í augu við að sérréttindin, lífeyrisréttindi þingmanna, ráðherra og æðstu embættismanna sem svo eru nefndir, eru langt umfram það sem almennt gerist í lífeyriskerfinu, líka hjá ríkisstarfsmönnum. Ávinnsla lífeyrisréttinda er miklu meiri sem og makabótarétturinn. Réttindi sem lúta að því að taki menn lífeyri fyrir 65 ára aldur skerðist réttindin um 6% á hverju ári — það gerist í A-deild lífeyrissjóðsins líka en í þessum hópi fara þau aftur upp í 100% við 65 ára aldur meðan þeir sem eru í A-deild LSR eru skertir til æviloka. Í þessu er munurinn fólginn og ýmsu öðru líka, ég nefni bara nokkur dæmi. Við erum því enn þá með umframréttindi.

Mér fannst næstum því átakanlegt að fylgjast með hæstv. utanríkisráðherra, formanni Samfylkingarinnar, klappa núverandi forseta þingsins, hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, á höfuðið og þakka honum fyrir hans framgöngu í þessu máli. Mikið hafði hann staðið sig óskaplega vel og það sem meira var, hann hafði sagt hug þingmanna, það sem þeir raunverulega hugsuðu. Þetta finnst mér vera kaldar kveðjur til Alþingis frá formanni Samfylkingarinnar.

Var hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson að lýsa hug þingmanna þegar hann stappaði stálinu í menn hér og talaði um hversu illa haldnir þingmenn væru í launum borið saman við einhverja forstjóra og bankastjóra úti í bæ? Hann horfði ekki til launa íslensku þjóðarinnar, ekki til ljósmóðurinnar, slökkviliðsmannsins eða kennarans. Nei, þingmenn áttu náttúrlega að bera sig saman við þá sem stóðu einhvers staðar uppi í efstu hæðum. Þá klappaði formaður Samfylkingarinnar starfandi þingforseta á höfuðið og sagði: Mikið óskaplega stóð maðurinn sig vel og sagði hug þingmanna. Þetta eru kaldar kveður til Alþingis, þannig hugsa menn ekki.

Síðan kom varaformaður Samfylkingarinnar hingað upp og sagði að það kæmi vel til greina að halda málinu áfram á síðari stigum. Þá kynnu menn að hafa uppi önnur úrræði, hugsanlega fara inn í A-deild LSR, en nú væru menn að stíga skref. Það sama sagði formaður Samfylkingarinnar: Við erum að stíga skref í rétta átt. Ef Samfylkingin og stjórnarmeirihlutinn væri tilbúinn að stíga þó ekki væri nema brot af þessu skrefi í þágu öryrkja og aldraðra þar sem nú er verið að skerða kjörin. Væri ekki nær að sýna þeirri umræðu meiri alúð og áhuga en því sem lýtur að eigin kjörum þeirra sem eru hér í þessum sal? Þetta finnst mér vera átakanlegur vitnisburður um hvernig komið er fyrir flokki sem kallar sig ekki bara Samfylkingu heldur jafnaðarmannaflokk Íslands. Ég fletti því síðarnefnda reyndar upp á heimasíðunni áðan og fann hvergi. Ég hugsa að þetta hljóti þá að vera skráð vörumerki sem til stendur að geyma til næstu kosninga og taka þá fram til að segja kjósendum hvað er ósatt um þennan flokk.