136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[15:44]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég taldi nú ekki nema tvær spurningar. Mér fannst vera talað um þrjár en ég er úr máladeild þannig að það getur vel verið að ég hafi ekki náð þessu alveg.

Tel ég 95 ára regluna sem er við lýði í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vera forréttindi? Já, það eru umframréttindi. Staðreyndin er sú að þann sjóð er í reynd búið að leggja niður í þeim skilningi. Honum var lokað fyrsta dag janúarmánaðar árið 1997. Eftir það fara allar nýráðningar inn í A-deild LSR.

Ég var í hópi þeirra sem studdu að ekki yrði hróflað við fyrri réttindum. Reyndar hafði ég léð máls á því á fyrri stigum samninga að búa til sameiginlegt lífeyriskerfi með eins konar sólarlagsákvæðum en sú varð ekki reyndin. Það var ákveðið að viðhalda þeim réttindum sem voru við lýði í B-deildinni fram til ársloka 1996 en það gildir hins vegar ekki um neinar nýráðningar.

Síðan varðandi útreikningana í A-deildinni. Nei, ég er ekki sammála þeim útreikningum, alls ekki. Staðreyndin er sú — og þetta er held ég rangt sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu sem hér liggur fyrir. Ef það ætti að reikna iðgjöldin í B-deild LSR og hann ætti að vera sjálfbær og standa undir sér ættu þau að vera miklu hærri en þau 10% af föstum launum sem þau eru. Þau ættu í reynd að vera á milli 30 og 40% og iðgjöld fyrir þessa deild ráðherra og þingmanna ættu ekki að vera neitt í líkingu við það sem þau eru, að minnsta kosti 40%, ef ekki meira. Þessir útreikningar eru því gersamlega út í hött.