136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[15:48]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég reyndi að gera grein fyrir því í máli mínu að þessi margföldun og deilingar og reiknikúnstir ganga hreinlega ekki upp vegna þess að það verður að horfa til annarra þátta en launanna eða lífeyrisgreiðslnanna einna. Það verður að horfa til makabótaréttar, það verður að horfa til réttinda kerfisins í heild sinni. Það hygg ég að hafi ekki verið gert réttilega í umsögn um frumvarpið sem hv. þingmaður er greinilega sammála, hvort sem hún hefur reiknað þetta út sjálf, kann vel að vera, mér heyrðist hún reyndar segja það, en til sambærilegra útreikninga er vísað í greinargerð með frumvarpinu. Ég tel þá vera ranga.

Þegar talað er um 95 ára reglu eða aðrar reglur sem gilda um réttindi launafólks í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vil ég minna hv. þingmann á að þetta er afurð kjarasamninga, þetta eru réttindi sem launafólk hefur samið um í áranna rás. Í langan tíma, og ég þekki það bara mjög vel við samningaborð, var teflt fram tveimur kostum. Vilja menn draga úr réttindum af þessu tagi, ekki bara lífeyrisréttindum, veikindarétti, öðrum réttindum, fæðingarorlofi — opinberir starfsmenn bjuggu við betra fæðingarorlof til skamms tíma en aðrar stéttir — vilja menn draga úr þessum réttindum og hækka kaupið eða vilja menn halda réttindunum og fórna því þá hugsanlega að halda kaupgjaldinu niðri?

Það að stilla þessu upp á þennan hátt sem forréttindum sem kennarar og hjúkrunarfræðingar og þessar stéttir sem búa við þessi kjör búi við finnst mér vera mjög ósanngjarnt.