136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

262. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því í svari mínu til hv. þm. Grétars Mars Jónssonar að leiðrétta það að fjáröflunarleiðin sem frumvarpið mælir fyrir um — ef hv. þingmaður mundi nú leggja símann frá sér á meðan ég svara honum — þá er ekki hér um nefskatt að ræða. Nefskattur er skattur sem leggst á hvern einasta einstakling án þess að neinn sé undanþeginn, þ.e. skattur á hvert nef. Þessi fjármögnunarleið gerir ráð fyrir því að ýmsir séu undanþegnir; börn undir 16 ára aldri, þeir sem eru eldri og þeir sem ekki ná tiltekinni fjárhæð í laun. Hér er því ekki um nefskatt að ræða í klassískum skattaréttarlegum skilningi.

Hitt er annað mál og rétt hjá hv. þm. Grétari Mar Jónssyni að umdeilt er hvort þessi leið sé sú rétta. Það liggur fyrir meirihlutasamþykkt hjá Alþingi að fara þessa leið og á meðan því hefur ekki verið breytt verður það gert. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að ýmsar aðrar leiðir eru mögulegar eins og t.d. að hafa Ríkisútvarpið á fjárlögum. Þá þyrfti væntanlega að breyta því í stofnun, ég minnist þess ekki að einhver hlutafélög fái bein fjárframlög á fjárlögum.

Við þær aðstæður sem uppi eru verðum við að leysa málið til að tryggja Ríkisútvarpinu tekjur eftir áramót og það er gert með þessum hætti. Hins vegar er fullkomlega málefnalegt að halda því fram að það megi gera með einhverjum öðrum hætti en þá verðum við bara að taka umræðuna um það síðar.