136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

262. mál
[16:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að tefja umræðuna, heldur spyrja hv. þingmann hvort í nefndinni hafi verið rætt að ef menn fara einni krónu umfram þetta tekjumark, þá borga þeir í fyrsta lagi gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra eitthvað um 6.000–7.000 kr. og síðan þessar krónur þarna, 17 þúsund, þ.e. borga um 24.000–25.000 kr. fyrir þessa einu krónu.

Í öðru lagi hvort í nefndinni hafi verið rædd hugmynd sem ég hef komið með áður að persónuafslátturinn væri lækkaður sem þessu næmi. Það væri afskaplega einföld aðgerð og mjög einföld innheimta og mætti alveg sérmerkja það í lögum að þessi hluti af persónuafslættinum rynni til útvarpsins.

Svo er það vandamálið með trillurnar og öll fyrirtækin. Búast menn ekki við vandræðum þegar maður sem hefur stofnað hlutafélag utan um trilluna sína þarf að borga? Hann hefur borgað sjálfur heima hjá sér og þegar hann hlustar á útvarpið úti á sjó þarf hann að borga líka fyrir trilluna og hvort trillan muni ekki mótmæla, því hún horfir ekkert á sjónvarp eða hlustar á útvarp, hvort menn geri ekki athugasemdir við þetta? Bændur sem eru með útvarp úti í fjósi og hlutafélag um allt saman að þeir borgi sérstaklega fyrir kusurnar. Þær eru kannski 20 og hlusta náttúrlega á útvarpið svo að það er kannski ekki alveg nógu gott sjónarmið.

Ég ætla ekki að koma í annað andsvar til að tefja ekki umræðuna en ég vildi gjarnan fá svör við þessu.