136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

262. mál
[16:16]
Horfa

Frsm. menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi síðasta atriðið er ég nú hræddur um að miðað við núverandi kerfi afnotagjalda að trillukarlinn og bóndinn sem var með útvarp úti í fjósi hefðu þurft að borga af því tæki vegna þess að gjaldskyldan miðast við hvert viðtæki sem er á heimilinu. Þeir sem eru með þrjú sjónvarpstæki heima hjá sér eiga því að borga þrjú afnotagjöld, hygg ég. (Gripið fram í.) Þessi misskilningur hefur verið leiðréttur.

Varðandi hin atriðin tvö þá var fyrra atriðið var ekki rætt í nefndinni og heldur ekki sá möguleiki að lækka persónuafsláttinn sem nemur framlaginu til Ríkisútvarpsins. Ég get hins vegar sagt að mér finnst það mjög góð hugmynd og ég veit að hv. þingmaður hefur margoft komið fram með hana. Það er einföld leið til þess að afla Ríkisútvarpinu tekna. Hitt er annað mál að hún hefur ekki komið til umfjöllunar frá hæstv. menntamálaráðherra og við höfum ekki tekið hana til sérstakrar umfjöllunar í nefndinni en það er kannski ástæða til að gera það í náinni framtíð.

Ég bendi á það sem ég sagði í framsöguræðu minni að sú tillaga sem felst í því frumvarpi sem hér er flutt er í rauninni tímabundin ráðstöfun sem kemur til endurskoðunar þegar við sjáum heildarpakkann varðandi auglýsingar og aðra þætti og starfshópur sem menntamálaráðherra skipaði mun ljúka störfum vonandi fyrir 15. febrúar á næsta ári.