136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

262. mál
[16:36]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að hrósa hv. menntamálanefnd sérstaklega fyrir góð vinnubrögð. Mikið tillit var tekið til þeirrar umræðu sem fram hefur farið bæði í þingflokkum og í þinginu um málið og ég fagna niðurstöðunni sem liggur fyrir. Við höfum ríkisfjölmiðla og erum alveg ákveðin í því að vera með þá. Um það er tiltölulega mikil sátt í flestum þingflokkum og í samfélaginu. (Gripið fram í.)

Mikilvægi fjölmiðla felst m.a. í upplýsingagildi og auglýsingar eru auðvitað ekkert annað en eitt form þess að miðla upplýsingum til þjóðarinnar. Að ætla að taka svo mikilvæga og stóra fjölmiðla, sem ríkisfjölmiðlarnir eru, af markaði rýrir möguleika á því að koma upplýsingum til almennings. Í eins fámennu samfélagi og við lifum í höfum við ekki það fjölbreytta flóru fjölmiðla svo ég er á þeirri skoðun að ekki sé rétt nálgun til að styrkja stöðu innlendra sjónvarpsstöðva eða frjálsra sjónvarpsstöðva að draga úr auglýsingabirtingum á ríkisfjölmiðlunum. Það gæti haft þær afleiðingar að draga úr íslenskri dagskrárgerð vegna þess að mörg þeirra fyrirtækja sem stunda innlenda dagskrárgerð hafa miklar og góðar aukatekjur og mörg hver fá drjúgan hluta af tekjum sínum af auglýsingagerð. Ef svo mikilvæg sjónvarpsstöð sem RÚV félli út í auglýsingagerð væri hreinlega ekki jafnmikill hvati til að búa til góðar og miklar auglýsingar í sjónvarpi.

Ekkert samasemmerki er heldur á milli þess að auglýsingatekjur RÚV, um 750 milljónir á ári, færu beint til hinna stöðvanna, það er ekkert sem segir það. Það sem ræður áhorfi eða birtingu á auglýsingum er áhorf á sjónvarpsþætti. Mælingar á auglýsingaáhorfi í dag eru orðnar það nákvæmar að ekki er víst að kakan mundi færast neitt yfir á hinar stöðvarnar hreinlega út af því að dagskrárliðir þeirra væru ekki nægilegur hvati til þess.

Þessar frjálsu stöðvar hafa vitað í 22 ár, frá því að þær tóku til starfa, að á ljósvakamarkaðnum væru fyrir ríkisstöðvar sem sýndu auglýsingar. Því er ekki hægt að kenna samkeppni RÚV um erfiða fjárhagsstöðu þessara fyrirtækja í dag, ég held að rætur þess liggi allt annars staðar. Að sama skapi eru frjálsar sjónvarpsstöðvar mjög mikilvægar fyrir okkur og mjög áríðandi að á þessum markaði sé samkeppni, eins mikil og góð samkeppni og þar getur þrifist. Ég er á því að við eigum að nálgast þetta með þeim hætti að reyna að styrkja samkeppnina. Við eigum að hjálpa frjálsum sjónvarpsstöðvum að laga samkeppni sína og vinna upp það forskot sem ríkisfjölmiðlarnir hafa með föstu áskriftargjöldunum sem þeir fá í gegnum skattheimtuna. Þetta sé ég fyrir mér að gæti verið gert þannig að hluti af tekjum ríkissjónvarpsins, hvort sem væri af auglýsingasölu — kannski helst af auglýsingasölu — færi til þessara stöðva með einum eða öðrum hætti. Þetta er útfærsluatriði og þar sæi ég fyrir mér að fyrst og fremst væri um að ræða leið til að efla íslenska dagskrárgerð, nota hluta af tekjum RÚV til að styðja íslenska dagskrárgerð á frjálsu stöðvunum sem aftur eykur samkeppnishæfni þeirra og gefur þeim möguleika á að selja fleiri auglýsingar og hafa auglýsingatímana dýrari þar sem dýrustu tímarnir eru gjarnan í kringum innlenda dagskrárliði.

Þetta vildi ég segja um frumvarpið, virðulegi forseti, og aftur vil ég fagna því að hv. menntamálanefnd skuli hafa komist að þessari niðurstöðu. Ég heyri það á málflutningi hv. formanns nefndarinnar að til stendur að halda vinnunni áfram og að við munum sjá afurð hennar í þingsölum fljótlega. Ég tel mjög mikilvægt að á þessu máli verði tekið, en ég tel að nálgunin sé röng. Í millitíðinni vonast ég til að hv. menntamálanefnd og hæstv. menntamálaráðherra sendi þau skilaboð til ríkissjónvarpsins að það hagi sér í samræmi við stöðu sína á markaði og misnoti ekki í auglýsingasölu þá sterku stöðu sem það hefur í gegnum fastar áskriftartekjur sínar.