136. löggjafarþing — 65. fundur,  20. des. 2008.

kolvetnisstarfsemi.

152. mál
[17:09]
Horfa

Frsm. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég óskaði sérstaklega eftir því að þetta mál yrði tekið aftur fyrir á fundi hv. iðnaðarnefndar. Tilgangurinn var að freista þess að fá málinu frestað fram yfir áramót þannig að hægt væri að vinna það betur.

Ég vil nefna nokkur þau atriði sem ég tel að nauðsynlegt hefði verið að nota tímann til þess að vinna betur. Meðal annars harma ég að ekki var tóm til þess að leita umsagnar Sambands íslenskra sveitarfélaga um aðkomu sveitarfélaga að leyfisveitingum mögulegum við leit að olíu á tilteknu svæði utan netlagna en innan einnar sjómílu þar fyrir utan. Þetta er lausn sem iðnaðarráðuneytið fann upp á, að skipta um hest í miðri á, og ekki var gefið tóm til þess að leita afstöðu sveitarfélaganna, því miður.

Ég benti einnig á að eðlilegt hefði verið að hafa samráð um uppbyggingu á þekkingar- og vísindasjóði við þær rannsóknastofnanir sem fyrir eru í landinu, Háskóla Íslands og aðrar rannsóknastofnanir, en til þess gafst heldur ekki tóm. Ég benti reyndar á þann annmarka sem er á lögunum að það er algjört gat hvað varðar skipulagsþáttinn. Allt sem laut að skipulagi á þessum svæðum var einfaldlega tekið út úr frumvarpinu og það hefði þurft að setja bráðabirgðaákvæði inn í lögin um hvernig standa ætti að gerð skipulags á Drekasvæðinu eingöngu vegna þess að það er jú það sem um er að ræða.

Það eru mikil vonbrigði, herra forseti, að hv. iðnaðarnefnd treysti sér ekki til þess að geyma afgreiðslu þessa frumvarps, vinna það eilítið betur og reyna að ná um það frekari samstöðu vegna þess að það hefur að mínu mati ekki komið fram neinn haldbær rökstuðningur fyrir því að afgreiða þurfi þetta mál hér og nú.

Ég vek athygli á því að hér hafa hrunið bankar. Nú er kominn 20. desember og ekki hafa verið afgreidd fjárlög eða fjáraukalög. Fólk er að missa vinnuna og fólk lækkar í launum en ekki hróflar það við hæstv. iðnaðarráðherra sem á hátíðarstundum kallar sig gjarnan olíumálaráðherra. Þetta ástand í samfélaginu breytir engu. Einu rökin sem höfð eru uppi fyrir því að klára þetta mál í pressu fyrir áramót eru þau að hæstv. ráðuneytið hafi einhvern tíma tilkynnt að það verði útboð á leyfum 15. janúar nk.

Herra forseti. Ég vildi óska þess að allar þær tilkynningar um stjórnvaldsákvarðanir sem menn hafa beðið eftir að kæmu til framkvæmda á næsta ári mættu fá þá afgreiðslu sem þetta dekurmál á að fá hér núna. Það er dapurlegt að ekki einu sinni leiðrétting á sjö ára gamalli þýðingarvillu hlaut náð fyrir augum hv. iðnaðarnefndar. Ég óskaði sérstaklega eftir því og lagði fram ítarlegar breytingartillögur um að menn hættu að tala um „sykrur“ þegar um er að ræða rannsóknir á jarðolíu og jarðgasi. En ekki einu sinni það, herra forseti, hlaut náð fyrir augum hv. iðnaðarnefndar, væntanlega vegna þess að tillagan kom frá stjórnarandstöðunni.

Ég verð að segja það, herra forseti, að mér finnst þetta dapurleg niðurstaða að þessu leytinu til. Það hefði mátt vinna þetta miklu betur. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munum freista þess að fá fram breytingar á þessum málum áfram og við munum sitja hjá þessa atkvæðagreiðslu.