136. löggjafarþing — 65. fundur,  20. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla úr ríkissjóði til málshöfðunar fyrir erlendum dómstólum.

248. mál
[17:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir hvert orð síðasta ræðumanns og vil um leið þakka honum og þingmönnunum sem standa að flutningi þessa máls fyrir frumkvæði þeirra. Það er lofsvert og ánægjulegt að einstöku sinnum taki Alþingi á sig rögg og taki hlutina í sínar hendur. Það mætti gerast oftar.

Ég sakna þess auðvitað, virðulegi forseti, að annað gott þingmannafrumvarp, heimildir til stjórnvalda til þess að frysta eða kyrrsetja tímabundið eignir ef á þarf að halda til að gæta hagsmuna þjóðarbúsins vegna bankahrunsins, skuli ekki hafa fengið sambærilega meðferð.

Ég vil líka nota tækifærið, og vísa þar til þess sem kom fram í máli hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, að með þessu er Alþingi að senda mjög sterk skilaboð sem ekki mega misskiljast. Alþingi vill að það verði farið í mál við Breta, það er ósköp einfalt mál eins og græna taflan hér sýnir. Ég vil því bara fá algerlega á hreint: Er ekki ljóst að framkvæmdarvaldið fær þessi skilaboð og misskilur þau ekki? Að það verði tryggt að fyrir 7. janúar nk., áður en frestir renna út, verði búið að höfða mál með stuðningi ríkisins bæði í tilviki Kaupþings og þvingaðrar yfirtöku dótturfélags þess í Bretlandi sem og frystingar á eignum Landsbankans með hryðjuverkalögum?