136. löggjafarþing — 65. fundur,  20. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla úr ríkissjóði til málshöfðunar fyrir erlendum dómstólum.

248. mál
[17:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Nokkrum mínútum á Alþingi hefur verið eytt fyrir minna en það sem hér er undir þannig að ég er ekki feiminn við að tefja hv. þingmenn í örfáar mínútur í viðbót þegar þvílíkir þjóðarhagsmunir eru í húfi.

Það er alveg hárrétt hjá hæstv. forsætisráðherra að í öðru tilvikinu á ríkið ekki beina aðild að máli þar sem er Kaupþing eða yfirtaka breska fjármálaeftirlitsins á bankanum Singer & Friedlander. Engu að síður er gríðarlega mikilvægt að það mál verði rekið og að þeir sem þar eiga aðild geti gert það með fjárhagslegum stuðningi ríkisins ef á þarf að halda eins og lagður er lagagrundvöllur að í þessu frumvarpi.

Hins vegar er það frystingin á eignum Landsbankans með beitingu hinna illræmdu hryðjuverkalaga. Þar koma íslensk stjórnvöld vissulega við sögu þannig að þar er um beina málsaðild að ræða. Engu að síður er að mínu mati mjög mikilvægt að Landsbankinn gamli verði þar málshöfðunaraðili, e.t.v. ásamt ríkinu og væntanlega er lögfræðilega hægt að ganga svo frá að báðir aðilar standi að málinu, m.a. vegna þess að vænlegustu möguleikar íslenska ríkisins til þess að reka beitingu hryðjuverkalaganna alla leið liggja að lokum til Mannréttindadómstóls Evrópu. Til þess að það sé hægt verður að tæma réttarúrræði innan Bretlands. Þess vegna verður hvort tveggja að gerast, að bæði málin verði höfðuð áður en frestirnir renna út og öllum réttarfarslegum leiðum verði haldið opnum til þess að hægt sé að reka þessi mál til enda.