136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[09:52]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Frumvarp ríkisstjórnarinnar er skref í rétta átt. Það er rétt að það gengur nær þeim réttindum sem almennt gilda en við sjáum í dag. Það hins vegar gengur ekki alla leið þannig að stjórnarandstaðan stendur sameinuð um breytingartillögur þar sem viljum að gengið sé alla leið, þ.e. að við förum inn í A-deild LSR. Þannig værum við í kerfi sem væri einfalt, auðskiljanlegt og gagnsætt, tækjum bara þau réttindi sem þar væru.

Ég býst við að þegar búið er að samþykkja frumvarp ríkisstjórnarinnar hér á eftir, sem ég geri frekar ráð fyrir að gert verði, verði kjararáð að hækka kaup þingmanna af því að í reglum um kjararáð stendur að taka eigi tillit til lífeyrisréttinda.

Virðulegur forseti. Þetta er skref í rétta átt en stjórnarandstaðan vill ganga lengra. Hún er sameinuð um það þannig að ef við hefðum haft meiri tíma í þinginu held ég að stjórnarflokkarnir hefðu farið inn á þá hugmyndafræði að fara í A-deild LSR. Því miður gafst ekki nógu mikill tími til að sannfæra ríkisstjórnarflokkana.