136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[10:11]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er verið að gera þá breytingu að þeir sem undir lögin heyra geti ekki í senn fengið lífeyrisgreiðslur og greiðslur úr ríkissjóði. Sannast sagna hef ég oft haft efasemdir um þessa grein þótt hún hafi sætt jafnvel mestri gagnrýni úti í þjóðfélaginu. Þær breytingartillögur sem við gerðum og voru felldar hér áðan kveða á um að að sönnu verði slík skerðing gerð á þeim sem komi til með að heyra undir lögin og hafi búið við áunninn rétt, ekki samkvæmt þeim sem fara inn í nýja kerfið, gagnstætt því sem hér var haldið fram, en við viljum ekki gera greinarmun — eða vildum ekki, það fólst í tillögu okkar — á milli greiðslna úr ríkissjóði annars vegar og greiðslna fyrir laun á vinnumarkaði hins vegar. Samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar á að draga af þeim einstaklingi sem vinnur hjá hinu opinbera en sé hann bankastjóri eða forstjóri olíufélags (Forseti hringir.) er hann laus allra mála samkvæmt þeim tillögum sem ríkisstjórnin er að samþykkja hér.