136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:16]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tilgangur minn með að koma í andsvar við hv. þingmann er að segja að forskrift þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru liggja í lögum um heilbrigðisþjónustu, sem allir flokkar stóðu að vorið 2007 og komu að undirbúningi að. Því lá alveg ljóst fyrir hvers konar skipulagsbreytingar yrðu en jafnframt að þær yrðu gerðar í samráði við viðkomandi sveitarfélög. Ég held að þegar upp er staðið muni fólk upplifa það sem bætta og betur skilgreinda þjónustu, m.a. þjónustu bráðamóttöku, móttöku vegna slysa og bráðatilvika, vegna þess að hugmyndir ganga út á að styrkja þann þátt. Enda er bráðamóttaka, bráðaþjónusta, hluti af grunnþjónustu þessara stofnana.

Töluverð umræða var jafnframt við 2. umr. — ég átti reyndar ekki kost á að taka þátt í henni af ákveðnum ástæðum — og þá kom fram að tillögur eru um niðurskurð í rekstri heilbrigðisþjónustu um 5,3 milljarða kr. Ljóst er að mjög erfitt verður að ná þessum markmiðum en ég tel að í því felist ákveðnar væntingar og að skipulagsbreytingarnar muni leiða til betri niðurstöðu.

Jafnframt var um það rætt við 2. umr. að verulegur uppsafnaður vandi væri hjá heilbrigðisstofnunum á yfirstandandi ári og ég bendi þá á að í fjáraukalögum, sem koma til 3. umr. í dag, eru lagðar til 800 millj. kr. til að mæta vanda öldrunarstofnana en við 1. umr. komu inn rúmir 3 milljarðar kr. til að mæta vanda annarra heilbrigðisstofnana.

Ákveðinn vandi er til staðar og standa verður mjög fast á bremsunni til að ná þeim (Forseti hringir.) markmiðum sem við ætlum að ná á næsta ári.