136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:38]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að segja eins og er að ég harma það mikla ábyrgðarleysi sem kemur fram í ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Það er í öðru orðinu eins og hv. þingmaður og hans flokksmenn tali eins og ekkert hafi breyst.

Hins vegar sagði hv. þingmaður eina ágæta setningu. Hann kom með nokkrar perlur og það var dálítið sérstakt að heyra hv. þingmann segja að það væri eitthvað í lögum. Hann sagði að það stæði svo margt í lögum eins og það væri algert aukaatriði sem eru svolítið sérkennileg skilaboð frá hv. þingmanni til almennings í landinu.

En hann sagði hins vegar að allir vissu að það þyrfti að spara. Það er vandinn sem við horfum fram á núna. En þegar kemur að því að vernda velferðarkerfið, sem við erum einbeitt í að gera, eru fjórir þættir sem koma til greina. Í fyrsta lagi er hægt að skerða þjónustuna. Í öðru lagi er hægt að hækka þjónustugjöldin. Í þriðja lagi er hægt að taka á rekstrinum og í fjórða lagi er hægt skoða ýmsan kostnað.

Við tökum þætti þrjú og fjögur og það er ekki auðvelt. Við erum að reyna að nýta þá fjármuni sem eru til staðar betur en nú er gert. Þá kemur að rekstrinum. Við erum einnig að reyna að lækka lyfjakostnað og þá kemur að ýmsu sem að því snýr.

Það er algerlega útilokað annað en að við lítum til rekstrar heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Hv. þingmaður spurði hvort hinir ágætu fulltrúar bæjarstjórnarinnar í Skagafirði gætu ekki komið með hugmyndir þegar kemur að þessum málum. Það skal upplýst að þegar hefur verið farið yfir það með þeim. Það var bara sjálfsagt og eðlilegt.

Það er líka rétt hjá hv. þingmanni að fyrst eigi menn að setja sér markmið og síðan að vinna eftir þeim. En því er algerlega vísað til föðurhúsanna að hér séu (Forseti hringir.) hroðvirknisleg vinnubrögð. Þeim er ekki fyrir að fara hér.