136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:45]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. heilbrigðisráðherra, einkavæðingarráðherra heilbrigðismála, að það eru ekki tillögur Vinstri grænna að fara að selja inn á sjúkrahúsin. Það er alveg hárrétt og hefur aldrei verið. En hinu svaraði hæstv. ráðherra ekki hvort hann ætlar að halda áfram á sömu braut um að vaða áfram í fyrirhyggjuleysi í sameiningu heilbrigðisstofnana á Norðurlandi og Norðvesturlandi og Vesturlandi og Vestfjörðum án nokkurs samráðs við fólkið heima fyrir.

Ég er reyndar ekki sammála honum í því að þetta séu fyrstu svæðin sem eigi að taka á sig skerðingarnar í heilbrigðismálum. Ég er ekki sammála honum í því. Þetta eru svæði sem bjuggu líka við neikvæðan hagvöxt meðan þenslan var hér.

En spurningin hér lýtur að því hvort heimafólk fær að koma að sínum málum sem lúta að heilbrigðismálunum, hvort íbúar Skagafjarðar eiga að horfa upp á að heilbrigðisráðherrann geti með einhliða geðþóttaákvörðunum sínum fært sjúkrahúsið á Sauðárkróki undir sjúkrahúsið á Akureyri, hvort heilbrigðisstofnanir á Hólmavík eða á Snæfellsnesi eiga að geðþóttaákvörðun ráðherrans að fara undir heilbrigðisstofnunina á Akranesi án þess að nokkuð sé farið í fyrir fram greiningu á því. Það var reyndar upplýst á fundi með sveitarstjórnarmönnum að heilbrigðisráðuneytið talaði um einhverja skýrslu sem hefði verið unnin en fengist ekki afhent.

Ef heilbrigðisstofnunin á Patreksfirði á að fara að leggjast undir sjúkrahúsið á Ísafirði bara til að þóknast geðþóttaákvörðunum heilbrigðisráðherra þá er ég andvígur því, já. Ef menn hafa hugmyndir þá er sjálfsagt að leggja þær fram en svona mál ræða menn og vinna með heimamönnum, (Forseti hringir.) með fólki sem þar þekkir til. Það er heimafólk sem á að njóta þessarar þjónustu, herra forseti, en ekki ráðherrann í sínum fílabeinsturni í heilbrigðisráðuneytinu.