136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[12:06]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að vinnubrögð við gerð fjárlaga þurfi að vera miklu agaðri og betri og forsendur fjárlaga þurfa að vera miklu tryggari og betur unnar. Nú er verið að afgreiða fjárlög þar sem allt er í óvissu meira að segja fyrir næsta ár. Tekjuáætlunin er í mikilli óvissu og nánast bara skot út í loftið. Lántökur svo skiptir hundruðum milljarða kr. á næsta ári eru að stórum hluta ágiskunartölur. Þess vegna lögðum við í minni hlutanum til og erum þeirrar skoðunar að það hefði átt að fresta afgreiðslu fjárlaga og vinna þetta betur því að ef fjárlögin eru illa unnin og röng í grundvallaratriðum þá verður líka framkvæmd þeirra í þeim dúr. Agaleysið af hálfu ríkisstjórnarinnar hvað þetta varðar er slíkt að ég tel að það hefði átt að fresta afgreiðslu fjárlaga og afgreiða bara greiðsluheimildir.

Eitt vil ég spyrja í lokin hv. þingmann út í, þ.e. orð framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hér ræður nú húsum og er búinn að setja sérstakan tilsjónarmann með framkvæmd fjárlaga á Íslandi. Hann leggur áherslu á í viðtali í gær og í fyrradag sem birtist í fjölmiðlum mikilvægi þess að ríkissjóður passi sig nú á því að skera ekki of hart niður útgjöld, hann eigi frekar að auka í til þess að ríkissjóður verði á slíkum erfiðleikatímum hvati fyrir hagvöxt, hvati fyrir atvinnulíf, hvati fyrir þjónustuna. Þess vegna kemur mér á óvart að hann skuli samtímis leggja til þennan niðurskurð (Forseti hringir.) á fjárlögum 2010. Telur hv. þingmaður að hægt sé að skila hallalausum fjárlögum árið 2010 (Forseti hringir.) eins og sjóðurinn gerir kröfu um, frú forseti?