136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[12:09]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú orðið hart í heimi þegar hv. þm. Vinstri grænna, Jón Bjarnason, er farinn að nota orð framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að rökstyðja sitt mál. (Gripið fram í.) En ég fagna þeim umskiptum vegna þess einfaldlega að eins og við sjáum berlega á því viðfangsefni sem við glímum við þá hefðum við aldrei komist í gegnum og munum ekkert komast í gegnum þá starfsemi ríkisins sem við ætlum að standa straum af á næsta ári nema með aðstoð erlendra sjóða eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til þess að fjármagna þau útgjöld sem við erum hér um bil að samþykkja í dag.

Ég er sammála þeim orðum sem vitnað var til að ríkissjóðurinn þarf á þessum tímum að bæta í umfram það sem hann hefur til ráðstöfunar. Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að við séum að gera það með því að reka og gera áætlanir um að reka ríkissjóð með 150 milljarða kr. halla. Þá er ríkissjóðurinn að sínu leytinu að taka á. Það er rangt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geri kröfu um að ríkissjóður verði rekinn hallalaus árið 2010. Það eru áform uppi um það 2012/2013. Ég tel að við ættum að geta náð þeim markmiðum með því að vanda okkur, með því að halda vel utan um, en ekki síst með því að ríkissjóðurinn gangi þannig til verka og starfsemi okkar að við ýtum undir aukna verðmætasköpun í landinu, að við förum að vinna með þeim hætti að atvinnureksturinn okkar og atvinnulífið framleiði meiri verðmæti úr þeim auðlindum sem landið býr yfir því að grunnurinn að búsetu okkar hér í þessu annars ágæta landi er að nýta gögn þess og gæði til lands og sjávar.