136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[12:27]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. þingmanni fyrir að segja það beint út við hvern hann á þegar hann talar svona. Ég veit eins vel og hann að þetta á ekki við mig en það er auðvitað alltaf best að menn komi beint fram þannig að það valdi engum misskilningi.

En það er annað mál sem ég vil fá að spyrja hv. þingmann út í. Hann fjallaði um landbúnaðarskólana og ég skildi hann svo að hann gerði sér vonir um að hægt yrði að leiðrétta rekstrarforsendur landbúnaðarskólanna. Í frumvarpi til fjáraukalaga er gert ráð fyrir að taka að nokkrum hluta á rekstrarhalla skólans á Hólum en enn þá hef ég ekki séð tillögur varðandi Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, hvort meiningin er að lagfæra rekstrarhallann. Það kemur væntanlega í ljós síðar í dag þegar koma fram tillögur við 3. umr. um fjáraukalagafrumvarpið, ég vonast til að þar verði einhverjar tillögur. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það verði svigrúm á næsta ári eða þarnæsta ári, annaðhvort í fjárauka árið 2009 eða í fjárlögum 2010, til að lagfæra rekstrargrundvöll þessara skóla. Miðað við útlitið þá er það skoðun mín að það verði minna svigrúm 2009 og 2010 en stjórnarmeirihlutinn hefur í fjáraukalögum fyrir árið 2008 til að koma til móts við þetta. Ég vil spyrja hv. þingmann hvað hann sjái fyrir sér í þessu.