136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[12:34]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á stöðu ungs fólks, sérstaklega á landsbyggðinni sem þarf að sækja langt í framhaldsskóla, taka þar á leigu húsnæði og halda sér uppi, vegna þess að aðstæður eru líka breyttar. Þær eru enn þá harðari og var það ekki gott áður, það var mismunun fyrir. Núna eru því minni möguleikar fyrir þetta unga fólk í skólahléum sem hefur verið mjög duglegt að fá sér vinnu til að reyna að vinna upp skólakostnaðinn. Fólk hefur minni tekjur sem bitnar langharðast á þeim sem eru tekjulægstir. Verður þarna að leggja í kostnað sem önnur heimili þurfa ekki eins og t.d. í höfuðborgarskólunum þar sem allir skólarnir eru staðsettir. Meira að segja var rausnarskapurinn ekki meiri en svo að þegar felld voru niður af hálfu Reykjavíkurborgar strætógjöld fyrir nemendur í framhaldsskólum gilti það bara fyrir íbúa svæðisins. Eru þó viðkomandi nemendur komnir utan af landi og greiða hér húsaleigu og alla sína neyslu. Samt er staðan ekki rausnarlegri en sú.

Í lokin, herra forseti, vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann vilji í ljósi orða hans áðan koma með okkur í þann leiðangur — og hann hefur nú stöðu til þess, ég held að hann sé formaður hv. heilbrigðis- og trygginganefndar, (Gripið fram í.) já, félags- og tryggingamála — hefði sjálfsagt mátt vera líka heilbrigðismála. Ég hefði nú treyst honum enn þá betur en núverandi formanni þar fyrir því að taka á málefnum heilbrigðisþjónustunnar á Vesturlandi og Norðurlandi og Norðausturlandi. Þetta eru svæðin sem mokuðu ekki upp neinum fjármunum á árum undanfarinnar þenslu. Þess vegna tel ég að fara eigi mjúkum höndum um það þegar verið er að beita niðurskurði á heilbrigðisstofnanir þar. En númer eitt: Ef breyta á skipulagi þessara stofnana er það náttúrlega gert af einhverri skynsemi og (Forseti hringir.) í samráði við heimafólk en ekki með einhliða aðgerðum af (Forseti hringir.) hálfu ráðherra í pukri. Vill hv. þingmaður ekki beita áhrifum sínum í þá veruna, herra forseti?