136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[13:36]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Maður hefur fengist við skemmtilegra viðfangsefni um dagana heldur en taka þátt í þessari fjárlagaumræðu á þessum desemberdegi sem er að vísu nokkrum mínútum lengri en dagurinn í gær en það er enn nokkuð mikið skammdegi samt yfir málum á Íslandi.

Það má segja að heildarmyndin hafi smátt og smátt verið að skýrast þótt enginn hafi almennilega lagt í að draga hana upp eða setja hana á blað. Þó má segja að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, varaformaður fjárlaganefndar, hafi ekkert dregið undan í því að breytingin hvað varðar afkomu ríkissjóðs væri stórfelld og dramatísk, að fara úr áður áætluðum afgangi upp á tæpa 40 milljarða á þessu ári yfir í nokkurra milljarða halla eins og nú stefnir í. Hann sagði að síðan drægi í sundur með tekjum og gjöldum ríkissjóðs á næsta ári um yfir 150 milljarða kr. Það eru væntanlega engin dæmi í ríkisbúskap okkar að svo hrottaleg sveifla komi inn á ríkissjóð á einu einasta ári og er þó ekki allt búið enn því að menn bæta því gjarnan við og hafa gert núna síðustu dagana og vísað þar m.a. í landstjórann nýja eða stiftamtmanninn frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að árið 2010 verði enn erfiðara. Það þurfi jafnvel strax að fara í undirbúning að frekari niðurskurði eða aðgerðum á fyrstu mánuðum næsta árs.

Í raun og veru er meiri hlutinn á sinn hátt búinn að viðurkenna að þetta séu einhvers konar bráðabirgðafjárlög og þetta sé svona ágiskun út í loftið, einhver rammi. Þá má spyrja til hvers verið er að setja fjárlög yfirleitt fyrir allt árið 2009. Hefði ekki verið málefnalegra og heiðarlegra að horfast í augu við það að forsendurnar eru þannig að vænlegast væri að afgreiða greiðsluheimildir fyrir ríkissjóð eftir áramótin þannig að það verði hægt að borga út laun og efna gerða samninga og virða eða fullnusta skuldbindingar ríkisins sem falla til á fyrstu vikum næsta árs og halda þessari vinnu áfram? Vegna þess að hæstv. ríkisstjórn velur hvort eigum við að kalla það einfalda eða aumingjalega leið þegar kemur að hinni hlið málanna, spurningunni um hvaða tekna væri með sanngjörnum hætti mögulega hægt að afla, ekki til að skipta sköpum í sambandi við hallann eða horfurnar að því leyti því að það er augljóslega ekki í okkar höndum. Við sækjum enga 100 eða 150 milljarða til að ná ríkissjóði hallalausum á næsta ári, það er ekki hægt, en fyrst og fremst til að horfa á hina hliðina sem ekki er undir og það eru viðfangsefnin, það er þjónustan, það eru störfin, það er almenningur í landinu sem á að búa við þessi fjárlög. Þá munar um hverja krónu, hverja milljónina, hverjar 10 millj., hverjar 100 millj., hvern milljarð sem við gætum kannski losað með einhverjum hætti, aflað með tekjum eða fengið upp í með einhverjum frekari sparnaði sem kæmi betur niður en það sem nú stendur til. Hann ætti að setja í þau verkefni sem tilfinnanlegast verða útleikin hér ef svo heldur sem horfir. Er enginn pólitískur áhugi á því á Alþingi, alla vega ekki innan stjórnarflokkanna að reyna að leita einhverra leiða til að þurfa ekki að fara að selja inn á sjúkrahúsin? Er það ekki einnar messu virði?

Hvað með Samfylkinguna, jafnaðarmannaflokk Íslands? Er það ekki svolítið sárt enn þá fyrir þann flokk að ætla að bæta nú í arfleifð sína eða forvera sinna með því að fullkomna sjúklingaskattaprógrammið þannig að hvergi í heilbrigðisþjónustunni verði lengur um að ræða gjaldfrjálsa þjónustu, ekki einu sinni þegar maður er vistaður inn á sjúkrahús að ráði læknis?

Þetta eru ekki stórir fjármunir. Það eru að vísu settar þarna inn 360 millj. sem allir vita að munu ekki nást og virðist ekki standa til að ná með sjálfu innritunargjaldinu heldur eitthvað upp í það. Hér er því einhver sýndarmennska á ferðinni enda er það í sjálfu sér ekki upphæðin sem öllu skiptir heldur grundvallaratriðið. Ætlum við líka að fara út í það ef við gætum með metnaðarfullri vinnu, segjum fram eftir janúarmánuði, náð niðurstöðu sem væri kannski í átt við það sem tillögur okkar vinstri grænna ganga út á, að fara blandaða leið viðbótartekjuöflunar þar sem lagðar væru einhverjar frekari byrðar á þá sem helst eru aflögufærir eftir í landinu? Hverjir eru það? Ætli það sé ekki það fólk sem enn er svo heppið að vera í fullri vinnu með góð laun eða þá þeir sem eru svo efnaðir að þeir hafa umtalsverðar fjármagnstekjur? Það skyldi nú ekki vera. Og ef slíkir aðilar geta lagt nokkra milljarða í púkkið á næsta ári sem við notum beint í það að hætta við að selja inn á sjúkrahúsin, að draga úr og helst falla frá sparnaði í almannatryggingakerfinu. Reyna kannski að milda niðurskurðinn og sársaukann í því sem stendur til að gera annars staðar og almennt í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu, svo að dæmi sé tekið.

Það vekur líka mikla athygli hvernig ríkisstjórnin hyggst fara í sparnaðinn. Þar er hlíft ýmsum gæluverkefnum sem mér er algerlega óskiljanlegt að menn skuli láta hvarfla að sér að halda áfram að moka peningum í eins og aðstæður eru orðnar í samfélaginu. Hvað á það að þýða að setja á annan milljarð króna í varnarmálastofnun suður við Keflavíkurflugvöll? Nýtt batterí sem snýst aðallega um að undirbúa og halda heræfingar, fá hingað vini okkar eins og Breta sem ætluðu að koma í jólamánuðunum og leyfa þeim að leika sér hér á okkar kostnað að verulegu leyti í einhverju svokölluðu loftrýmiseftirliti. Þeir líta á það sem skemmtilegt frí, skemmtilegt tækifæri til að leika sér og æfa stríðstól sín í landi þar sem þeir fá kannski að olnboga sig með frjálsari hætti en þeir geta gert heima hjá sér hvað varðar lágflug og annað í þeim dúr.

Hvað á það að þýða, virðulegur forseti, að halda til streitu þessum fokdýru skipulagsbreytingum í heilbrigðis- og tryggingamálum sem við erum með á borðunum núna og kosta stórfé. Það er búið að eyða stórfé og enn er verið að eyða stórfé og á að biðja um meira í ráðgjöf til innlendra og erlendra aðila til að halda þessari vitleysu áfram. Komið hafa fram upplýsingar um þetta mál í allsherjarnefnd, hygg ég. Búið er að verja í þetta heilmiklum peningum. Strax á árinu 2007 fóru í þetta tæpar 12 millj. í ráðgjöf, í þetta gæluverkefni ríkisstjórnarinnar að stofna Sjúkratryggingastofnun. Það fara í það tæpar 40 millj. kr. á þessu ári, þá eru komnar 50 millj. kr. Það er upplýst að það kosti stórfé á ári hverju að reka þetta tvöfalda batterí, reka þessa nýju stofnun umfram það sem sparast hjá Tryggingastofnun því að hana á að reka áfram. Hún verður keyrð áfram með sinni yfirstjórn, sínum tölvukerfum og sínum bráðnauðsynlegu verkefnum. Það væri fróðlegt, frú forseti, að hæstv. heilbrigðisráðherra kæmi og færi aðeins yfir þetta líka, t.d. þennan ráðgjafarþátt. Mér er að vísu ljóst að þetta er vistað hjá forsætisráðuneytinu undir því yfirskini að það varði samskipti tveggja ráðuneyta, það sé erfitt að sortera það sundur. Það virðist t.d. vera þarna eitt ráðgjafarfyrirtæki, InDevelop Íslandi ehf. sem hafi fyrst og fremst annast þessa vinnu og verið áskrifandi að tugum milljóna króna hjá ríkissjóði fyrir ráðgjöf varðandi þetta verkefni.

Hvernig var þetta fyrirtæki valið? Var þetta boðið út? Hvernig hefur ráðgjöfin gefist, frú forseti? Er ekki allt logandi í illdeilum í málinu? Kom ekki hæstv. félagsmálaráðherra og sagði að þetta væri ófremdarástand eftir eins og hálfs árs ráðgjöf sem kostað hefur tugi og aftur tugi millj. kr.? Þá er ófremdarástand, segir annar af tveimur hæstv. ráðherrum sem málið varðar sérstaklega, ráðherra tryggingamála. Þetta býður ríkisstjórnin upp á í sama mund og farið er í blóðugan og sársaukafullan niðurskurð á viðkvæmum sviðum velferðarmála. Verið er að þjarma t.d. að skólunum þannig að skólayfirvöld vita ekki hvernig þau eiga að takast á við þá auknu aðsókn sem nú er til þeirra af því að fólk vill sem betur fer frekar nota tíma sinn í að reyna að mennta sig en ganga um atvinnulaust. Þá er á sama tíma skorið niður, stórfelldur niðurskurður á stærstu menntastofnunum, tilfinnanlegast hjá Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Á sama tíma gengur menntamálaráðherra um og segir að það sé um að gera fyrir fólk að drífa sig inn í skólana og nota tímann til að mennta sig. En hvernig þeir eiga síðan að takast á við það að kenna öllum þessum nýju nemendum, búa þeim starfsaðstöðu og finna fyrir þá rannsóknarverkefni eða annað eftir atvikum því að margir af þessum nemendum ætla sér í framhaldsnám í háskóla? Því er ekki svarað.

Ég held því fram, frú forseti, að einn mesti veikleikinn í því hvernig menn glíma — ef glímu skyldi kalla — við þessa erfiðleika okkar sé að menn horfa fram hjá því að Ísland er þróað land með norrænt velferðarkerfi, að því marki sem það komst til þroska hér, sem er að lenda í kreppu.

Við erum með félagslega aðstoð hjá sveitarfélögum. Við erum með atvinnuleysistryggingar og við erum með ýmsar frekari ráðstafanir, sem betur fer, sem fólk á að geta reitt sig á ef það þarf á því að halda. En það þýðir að á sama tíma og útgjöld sparast að nafninu til, t.d. með uppsögnum opinberra starfsmanna, vakna þau annars staðar í formi atvinnuleysisbóta, félagslegrar aðstoðar eða slíkra hluta hinum megin hjá þessu sama opinbera. Þess vegna verður að horfa á hlutina dálítið öðruvísi hér en menn hafa gert sums staðar í vanþróaðri ríkjum þar sem fólki stendur því miður ekki til boða öryggisnet af því tagi sem við vonandi erum þó sammála um að við ætlum að verja, enda aldrei mikilvægara en þegar aðstæður af þessu tagi skella á.

Ríkisstjórnin kynnti líka á hinum frægu karamellufundum sínum síðdegis á föstudögum með hálfs mánaðar millibili, held ég, meðan hún naut ráðgjafar norska hermála- og almannatengslafulltrúans sem kostaði örugglega eitthvað, annars vegar blað um aðgerðir til stuðnings heimilunum og svo seinna aðgerðir til stuðnings atvinnulífinu. Það var magurt svo að vægt sé til orða tekið hvort tveggja. Síðan hefur ekkert af því heyrst. Er eitthvað í fjárlagafrumvarpinu sem bendir til þess að ríkisstjórnin sé með einhverja heildstæða áætlun, einhverja hugsun, eitthvert „prógramm“ um hvernig styðja eigi heimilin í alvörunni í gegnum erfiðleikana og hvernig eigi ekki bara helst að halda atvinnulífinu á lífi heldur vonandi horfa til aukinna verðmætasköpunarmöguleika og allra tækifæra sem mögulegt er að nýta sem hefur aldrei verið okkur mikilvægari en nú, a.m.k. um langt árabil? Það er því miður ekki, það er engu slíku til að dreifa hér. Stundum er sagt að það sé dýrt að vera fátækur og það er rétt. En leiðin út úr fátæktinni er þó að reyna eitthvað, reyna að bæta aðstæður sínar, reyna að afla tekna.

Hvað er það sem er mikilvægast af öllu fyrir Ísland núna? Það er að verjast atvinnuleysi og það er að verjast landflótta, það er engin spurning. Þær bráðustu hættur sem að okkur steðja og munu gera hlutina enn óviðráðanlegri ef mönnum tekst ekkert til í þeim efnum er að við missum atvinnuleysi upp úr öllu valdi og að ekkert rofi til í þeim efnum. Það mun verða ávísun á landflótta fyrr eða síðar. Ef ekki tekst að draga upp það andrúmsloft að menn ætli að snúa sér af alvöru og kjarki í að takast á við þessa erfiðleika en ekki hrekjast undan eins og núverandi blessuð ríkisstjórn hefur gert fram að þessu lítur þetta satt best að segja því miður ekkert allt of glæsilega út hjá okkur, frú forseti. Það er dapurlegt að þurfa að segja það og horfast í augu við það. Auðvitað heldur maður í trúna (Forseti hringir.) á það að þetta sé leysanlegt verkefni, erfitt sem það verður. En það þarf þá heldur betur að fara að verða breyting á frá því sem andrúmsloftið hefur þróast hjá (Forseti hringir.) hæstv. ríkisstjórn enn sem komið er.