136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:06]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Fyrst núna við 3. umr. fjárlagafrumvarpsins er myndin eilítið tekin að skýrast. Nú er m.a. komið fram hversu mikil og þung sú vaxtabyrði verður á næsta ári sem okkur er ætlað að standa undir og er bein afleiðing af falli bankanna. Viðbótin í vaxtagjöldum á milli ára er meira en 50 milljarðar kr. sem rekja má beint til falls bankanna. Samanlagt er talið að 87 milljarðar kr. fari í vexti.

Þar er þó ekki öll sagan sögð vegna þess að enn á eftir að taka inn í dæmið vaxtagjöld vegna Icesave-reikninganna. Hér hefur nokkuð verið fjallað um hversu mikið það mun kosta íslenskt samfélag að ríkisstjórnin beygði sig í hnjánum fyrir hótunum frá Evrópusambandinu, samþykkti að standa skil á Icesave-reikningunum og fékk þannig aðgöngumiða að láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum án þess að nokkuð í tilskipunum Evrópusambandsins segði til um að ríkið sem slíkt ætti að standa undir slíkum skuldbindingum. Menn vita að skuldbindingarnar í það heila eru í kringum 650 milljarða kr. Hæstv. forsætisráðherra sem og þeir stjórnarliðar sem hafa tjáð sig um þetta segja hins vegar að um 150 milljarðar kr. gætu lent á okkur því eignir Landsbankans í Bretlandi munu vera um 500 milljarðar. Frú forseti. Ég leyfi mér að efast um þetta. Á meðan Ísland er enn á lista bresku ríkisstjórnarinnar yfir hryðjuverkamenn og frystingin á eignum bankanna í Bretlandi er enn þá staðreynd er það fyrir mér vitnisburður um að Bretar ætli sér að haldleggja þessar eignir og nýta þær til að greiða þann mismun sem þeir hafa lofað sínum þegnum og eigendum Icesave-reikninganna að borga, þ.e. muninn á milli 20 þús. evra annars vegar og 50 þús. evra hins vegar. Það hafa Bretarnir ætlað að greiða en allt á þetta eftir að koma í ljós.

Frú forseti. Það er staðreynd að til að standa við það sem ríkisstjórnin hefur lofað verðum við að taka allar þessar 650 milljarða kr. að láni og við verðum að greiða Icesave-reikningana. Síðan á að selja eignir bankanna og sjá hvað kemur upp í þetta. Því segi ég að það er langt í frá að heildarmynd sé komin á þessi fjárlög. Þarna stendur út af mjög stór þáttur, vaxtakostnaðurinn af Icesave-reikningunum. Ég tel að það sé algerlega óábyrgt að ganga frá fjárlögunum með þessum hætti.

Við vinstri græn höfum lagt til að í stað þess að afgreiða þessi illa undirbúnu fjárlög verði samþykktar greiðsluheimildir til bráðabirgða þannig að tóm gefist til að vinna ný fjárlög á traustari grunni í febrúar. Við höfum líka bent á að forgangsröðunin í þessum fjárlögum er röng. Niðurskurðartillögurnar sem blasa við eru vanhugsaðar og félagslega mjög ranglátar. Þær miða alls ekki við þau viðbrögð sem aðrir í heiminum grípa núna til í kreppunni. Við skerum niður á meðan aðrar þjóðir gefa í. Bragð er að þá barnið finnur þegar sjálfur Dominique Strauss-Kahn, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, kemur fram í fjölmiðlum í Bretlandi og segir að ríkisstjórnir verði að auka fjárlagahallann. Þær verði að gefa svolítið í en megi ekki skera bara niður því þá dýpki kreppan. Það mætti halda að Dominique Strauss-Kahn hefði hlustað á það sem við vinstri græn höfum haft fram að færa í þessu krepputali. Við höfum nefnilega bent á að það mætti auka hallann hér til að forðast hinn sára, og ég endurtek blóðuga niðurskurð sem fyrir dyrum er í velferðarkerfinu, bæði gagnvart lífeyrisþegum, elli- og örorkulífeyrisþegum, og ekki síður heilbrigðisþjónustunni og sjúklingum. Það er dapurlegt að á meðan fréttir berast af því að spillingin vaði áfram uppi í bankakerfinu er staðreyndin sú að engin rannsókn er enn þá hafin á bankahneykslinu. Ég leyfi mér að kalla það spillingu ef um er að ræða stórfelldar afskriftir á skuldum auðmanna í þessum svokölluðu ríkisbönkum og bönkunum sem nú eru undir stjórn Fjármálaeftirlitsins í gegnum skilanefndir og aðstoða fólk í greiðslustöðvun en á sama tíma er á hv. Alþingi ekki leyft að ræða um kyrrsetningu eigna auðmanna.

Frú forseti. Með samþykkt þessa frumvarps verða vatnaskil í heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Það er verið að auka gjaldtöku á sjúklinga, 1.100 millj. kr. eiga að koma úr vösum sjúklinga á næsta ári til viðbótar við það sem fyrir var. Í fyrsta lagi á nú að selja inn á sjúkrahúsin eins og hér hefur komið fram. Það á að þyngja byrðar allra sjúklinga en þó sérstaklega þeirra sem eru svo hundveikir að þeir þurfa að leggjast inn á sjúkrahús.

Í upphaflega frumvarpinu sem kom frá hæstv. forsætisráðherra í bandorminum kom fram að það ætti að taka 360 millj. kr. með þessum nýja spítalaskatti. Þetta hefði jafngilt ríflega 10 þús. kr. á hverja innlögn. Kannski menn hafi hrokkið við og séð að það gæti verið erfitt að rukka fólk sem komið væri upp í sjúkrarúm um 10 þús. kr. áður en farið væri að tala við það. Ég reikna með að það sé skýringin á því að fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins upplýstu á fundi hv. heilbrigðisnefndar að það ætti ekki að taka nema 4.000 kr. á mann fyrir að leggjast inn á spítala. Það mundi gefa 110 millj. kr. en þessar 250 millj. til viðbótar sem þá vantaði til að fjárlögin stæðust fengjust með hækkunum á öðrum sjúklingasköttum og komugjöldum. Engin svör hafa fengist við því hér í umræðunni af hvaða gjöldum á að taka þetta, hvað á að hækka. Er það kannski gjaldið fyrir keiluskurð sem er 6.300 kr. í dag? Eða gjaldið fyrir hjartaþræðingu sem er nú 6.200 kr.? Er það slysadeildin? Bráðamóttakan? Hver af þessum komugjöldum á að hækka til að taka inn 250 millj. kr., frú forseti? Um það hafa engin svör fengist.

Verði þetta frumvarp samþykkt hefur ráðherra fengið opinn tékka, annars vegar upp á þessar 110 millj. sem taka á af sjúklingum inni á spítölunum en síðan er algerlega undir hælinn lagt hvaða gjöld sjúklinga verða hækkuð til að taka inn aðrar 250 millj. kr. Þetta er þó ekki eini opni tékkinn sem er að finna í þessu fjárlagafrumvarpi og hæstv. heilbrigðisráðherra fær í hendur.

Ég hef nefnt þessar 360 millj. kr. í sjúklingaskattinum en vil einnig benda á að í tveimur öðrum liðum í breytingartillögum frá ríkisstjórninni er um 730 millj. kr. velt beint yfir á sjúklinga með því að auka þátttöku þeirra og hlutdeild í lyfjakostnaði. Þar er annars vegar um að ræða 320 millj. kr. sem eiga að fást með því að hækka viðmiðið sem greiðsla Sjúkratryggingastofnunar á lyfjum miðast við og hins vegar um 410 millj. með almennri hækkun á hlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði. Hér er annar opinn tékki sem hæstv. heilbrigðisráðherra fær með þessu frumvarpi.

Þriðji opni tékkinn sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur fengið með framlagningu þessa frumvarps hljóðar upp á um 700 millj. kr. Það er liður 08-379 í fjárlagafrumvarpinu er nefnist Sjúkrahús, óskipt. Upphaflega var áætlað að þessi liður hljóðaði upp á tæplega 200 millj. kr. Þó að ég geti ekkert fullyrt hvað þetta varðar því ekki hefur gefist tóm til að bera þessar tölur almennilega saman og enginn af framsögumönnum meiri hlutans hefur farið í þessi mál með þeim hætti að eitthvað fáist út úr því — það sér undir iljarnar á hv. formanni heilbrigðisnefndar og öðrum talsmönnum meiri hlutans í heilbrigðismálum þegar að þessum málaflokki kemur við umræðu um fjárlög — sýnist mér að hæstv. heilbrigðisráðherra fái um 700 millj. kr. til endurráðstöfunar til heilbrigðisstofnana. Í greinargerð með þessum tillögum segir einnig að stefnt sé að því, eins og mikið hefur verið rætt í dag, að ein heilbrigðisstofnun verði í hverju heilbrigðisumdæmi á landsbyggðinni og verkefnið verði flutt milli stofnana og heilbrigðisumdæma.

Frú forseti. Þessar 700 millj. kr. eru plokkaðar af heilbrigðisstofnunum vítt og breitt um landið og heilsugæslunni líka án minnstu skýringa. Engar forsendur eru gefnar fyrir því hversu mikið er skorið af hverri stofnun. Ég vil nefna dæmi. Það á að taka um 500 millj. kr. af Landspítalanum í þessa endurskipulagningu á heilbrigðisumdæmum úti um landið og 70 millj. kr. af heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. (PHB: Það er búið að svara þessu.) 68,8 millj. kr. á að taka af heilsugæslunni af höfuðborgarsvæðinu til að breyta heilbrigðisumdæmum landsins. Þetta er aðför að heilsugæslunni og ég treysti ekki hæstv. heilbrigðisráðherra eða hv. formanni heilbrigðisnefndar til að fara með þessi mál.

Hér var gripið fram í fyrir mér áðan og sagt að búið væri að svara þessu. Því hefur kannski verið svarað, hv. þm. Pétur Blöndal, á vettvangi Sjálfstæðisflokksins. (PHB: Hér í þingsal.) Mér er fyllilega ljóst að hv. formaður heilbrigðisnefndar lifir í einhverjum sérstökum heimi þar sem hún fær í hendur undirgögn frá heilbrigðisráðuneytinu. (PHB: Ég svaraði þessu.) Ég hef ekki fengið skýringu á því, hv. þm. Pétur Blöndal, af hverju verið er að taka 68,8 millj. kr. af heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu til að endurskipuleggja heilbrigðisumdæmi úti á landi. Til að flytja, eins og hér hefur verið bent á, allar heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi milli Langaness og Hvammstanga eða frá Blönduósi yfir á Akureyri.

Frú forseti. Ég hef nefnt þrjú atriði þar sem hæstv. heilbrigðisráðherra er afhentur opinn tékki til gjaldtöku og niðurskurðar í heilbrigðisþjónustunni. Ég tel að með því móti sé Alþingi í rauninni að veita fjárheimildir sem ekki samrýmast lögum. Ég tel að það verði að fjalla mun betur um fjárveitingar og skatta af þessu tagi sem sjúklingaskattarnir eru en ekki vísa þessu svona inn. Ég vil sérstaklega mótmæla því hvernig staðið er að þessari endurskipulagningu í heilbrigðisþjónustunni vegna þess að þetta er í rauninni bara yfirlýsing um stríð heima í héraði. Það er verið að láta menn slást milli héraða um hvar og hvernig á að vera hægt að komast til læknis.

Það er rangt að þetta geti bætt þjónustu eins og þeir sem best þekkja til hafa bent á. Ég vil að lokum benda á að það eru ekki einungis heilbrigðisþjónustan og heilsugæslan sem eru hér undir hnífnum. Við 3. umr. er gerð tillaga um að skera niður 200 millj. kr. sem voru ætlaðar til uppbyggingar á öldrunarstofnunum úti um allt land. Þessi framlög áttu að vera í samræmi við áætlun ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu 400 nýrra hjúkrunarheimila. Með þessu (Forseti hringir.) fjárlagafrumvarpi er þeirri áætlun hent út í hafsauga.