136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[16:13]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hæstv. ráðherra verði að skýra aðeins betur hvað hún á við. Að taka til í rekstri þýðir eftir því sem ég hef oft skilið hæstv. ráðherra að einkavæða á skólann. Firra á ríkið ábyrgð á stofnununum og koma þeim í annað form. Við þekkjum þetta m.a. með Háskólann í Reykjavík og Fjöltækniskólann.

Ég hef ekki trú á að þær aðstæður séu nú uppi að einkaaðilar séu reiðubúnir að koma með fjármagn inn í þessa stofnun þó svo að hæstv. ráðherra geti orðið að ósk sinni með einkavæðingu þeirra. Ég legg áherslu á að þessar stofnanir gegna gríðarlegu hlutverki í menningarlegu og samfélagslegu tilliti fyrir landið allt, ekki aðeins fyrir nánasta umhverfi sitt. Þess vegna finnst mér að þetta séu véfréttaryfirlýsingar frá hæstv. ráðherra um að breyta þurfi rekstrarformi eða eitthvað slíkt til að ráðherrann komi að og ég vara við því ef binda á Landbúnaðarháskóla Íslands við það að hann verði að fara í eitthvert einkavæðingarferli. Áfram stendur, alveg sama hvort hæstv. ráðherra setur skólann í eitthvert einkavæðingarferli eins og hún hefur gert við skóla á höfuðborgarsvæðinu, að hallinn sem stofnunin er nú með gerir henni gersamlega ófært að starfa áfram ef hann er ekki tekinn af. Miklu eðlilegra er ef hæstv. ráðherra vill keyra eitthvert annað rekstrarform í gang að það sé gert á sléttu borði en ekki með því að negla stofnanir upp við vegg og nánast að hóta þeim að ef ekki verði breytt um form muni þær ekki fá úrlausn mála sinna.

Ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra: Er það ætlunin að láta Landbúnaðarháskóla Íslands fara út í árið (Forseti hringir.) 2009 með uppsafnaðan halla, hátt á annað hundrað millj. kr., (Forseti hringir.) frá þessu ári og síðustu tveimur eða þremur árum?