136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[16:20]
Horfa

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Nú fer fram 3. umr. um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2008. Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um málið núna við lok þessarar umræðu. Ég vísa til nefndarálits minni hlutans bæði við þessa umræðu og eins við 2. umr. þar sem ítarlega var fjallað um málið. Ég vil fyrst og fremst ræða aðeins það mál sem var síðast til umfjöllunar, þ.e. málefni Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, og vísa til þeirra svara sem komu fram hjá hæstv. menntamálaráðherra í andsvörum rétt áðan og þakka fyrir það sem kom fram hjá henni svo langt sem það nær.

(Forseti (KHG): Forseti biðst forláts. Forseti óskar eftir því að þingmenn séu ekki í samtölum í salnum meðan ræðumaður hefur orðið.)

Takk fyrir það, hæstv. forseti. Ég vil spyrja hæstv. menntamálaráðherra aðeins nánar út í þetta málefni. Það liggur fyrir að töluverður rekstrarhalli er núna við lok ársins hjá þessum skóla. Í fjáraukalagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir einni einustu krónu til að mæta því. Hæstv. ráðherra hefur reyndar farið yfir það hver framtíðarsýnin gæti hugsanlega verið varðandi starfsemi landbúnaðarháskólans. — Virðulegi forseti. Það er svolítið truflandi þegar fram fara hávær samtöl í hliðarsal. — En ég vil spyrja hæstv. menntamálaráðherra: Hvaða skilaboð munu stjórnendur skólans fá varðandi þessa stöðu þegar þeir hefja starfsár sitt nú um áramótin með þennan mikla halla? Ég veit að gert var ráð fyrir því að rammi þeirra yrði stækkaður og að aukið rekstrarfé kæmi inn í fjárlögin. Ég spyr einfaldlega: Hvernig eiga stjórnendur landbúnaðarháskólans að vinna úr þessum málum á næsta ári? Því þó svo að hér komi frumvörp um breytingar á lögum, eins og ráðherrann kom inn á áðan, þá gerist það ekki einn, tveir og þrír. Stjórnendur standa frammi fyrir þessari stöðu eins og hún er og ég spyr hæstv. menntamálaráðherra: Hvaða skilaboð fá stjórnendur? Hvernig eiga þeir að vinna úr þessum málum? Hvernig eiga þeir að mæta þessari rekstrarstöðu? Eiga þeir að draga úr starfsemi og segja upp fólki eða hvaða úrræði hefur hæstv. ráðherra fyrir stjórnendurna á þessu stigi málsins?

Að svo mæltu ætla ég ekki að hafa þessa ræðu lengri en ég vænti þess að hæstv. ráðherra komi í andsvar þannig að við getum átt örstutt skoðanaskipti um málið.