136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[16:23]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér er mikil ánægja að koma upp í andsvar við hv. þm. Magnús Stefánsson sem ég hef átt gott og farsælt samstarf við. Hvaða svör eru gagnvart Hvanneyri? Þau eru nákvæmlega hin sömu og við gáfum varðandi Háskólann á Akureyri. Það þarf að beina sjónum að rótum vandans sem er mikill rekstrarvandi. Það verður auðvitað ekki gert nema í samvinnu við menntamálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið um það hvernig við ætlum að endurskipuleggja Hvanneyri.

Af hverju var ég að draga fram ný frumvörp um afnám búnaðarfræðslulaganna? Það er m.a. vegna þess að þar sjáum við móta fyrir ákveðinni framtíðarsýn varðandi aukið samstarf eða hugsanlega sameiningu við aðra háskóla. Ég held að það mundi einmitt styrkja Hvanneyri verulega ef sú starfsemi sem þar fer fram færi í samstarf við aðra háskóla, hvort sem það er Bifröst eða Háskóli Íslands. Við eigum ekki að útiloka neitt í þeim efnum en það er ljóst að við munum þurfa að taka á rekstrarvandanum. Ég mun hins vegar ekki bera út þau skilaboð að Hvanneyri eigi að fara að segja upp fólki. Ekki Hvanneyri frekar en aðrir háskólar. Allir háskólar á landinu standa frammi fyrir sársaukafullum rekstri á næstunni eins og öll önnur fyrirtæki og stofnanir í landinu. Fjárlagafrumvarpið og fjáraukafrumvarpið bera það engu að síður með sér að verið að hlífa þessum stofnunum og velferðarstofnunum umfram aðrar stofnanir. En enn og aftur ítreka ég að í þessu erfiða efnahagsumhverfi eru engar stofnanir undanskildar hvað varðar hagræðingu og betri rekstur.