136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[16:24]
Horfa

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör sem ég tel reyndar ekki nægjanleg. Ég spyr því hæstv. ráðherra í ljósi stöðunnar hjá landbúnaðarháskólanum, ég man ekki nákvæmlega tölurnar yfir hallann, ég held að hann sé vel yfir 200 millj. kr. ef ég man rétt. Telur ráðherra að það verði eitthvert svigrúm á næsta ári eða þarnæsta til að mæta þessum vandræðum? Ég verð að viðurkenna að ég tel að svigrúmið til þess verði ekki mjög mikið. Þess vegna spyr ég: Hvernig stendur á því að ekki koma tillögur um það í fjáraukann núna fyrir 2008 þar sem er þó að mínu mati meira svigrúm til að fara inn á slíka hluti?

Ég vil gjarnan heyra meira frá ráðherra og ætla að vera svolítið leiðinlegur við hana en það verður bara að fylgja þessu: Hvernig eiga stjórnendurnir að leysa úr málunum? Ráðherra segir hér að það eigi ekki að segja upp fólki og ég skildi það svo að það ætti ekki að draga úr starfseminni. Hvernig þá, miðað við fjárhagsstöðu skólans? Því miður, hæstv. menntamálaráðherra, ég næ þessu ekki alveg heim og saman og þess vegna vil ég ganga örlítið harðar að ráðherranum varðandi svör um þetta, þessi praktísku atriði.