136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[16:26]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum reynslu af því að taka á stofnunum með halla og sérstaklega háskólastofnunum. Við höfum reynslu af því og höfum gert það ágætlega og ég bendi aftur á Háskólann á Akureyri. En ég tel að það sé ekki rétt aðferð að auka við á fjárauka eða fjárlögum til neinnar stofnunar nema fyrir liggi hvernig menn ætla að ná sér út úr rekstrarhallanum. Það er ábyrgðarleysi, og talandi um ábyrgð, það er ábyrgðarleysi að setja aukið fjármagn inn í stofnanir ef um halla stofnunar er að ræða og ekki liggur fyrir hvernig eigi að vinna sig út úr hallanum. Þær tillögur mun ég vinna í samvinnu og samráði við starfsmenn á Hvanneyri.

Ég bendi líka á að það liggja fyrir tillögur um rekstur Hóla, það liggja fyrir tillögur um hvernig byggja eigi upp á Hólum. Og hvað gerum við? Við fylgjum því eftir, við komum með tillögur inn í fjáraukann upp á 170 millj. kr. til að fylgja eftir hugmyndum okkar um betri rekstur. Ég tel þetta sýna að okkur er fúlasta alvara að taka á rekstrarvanda og rekstrarhalla menntastofnana en þær eru ekki undanskildar. Hvað varðar Hvanneyri þá hef ég mikla trú á aukinni uppbyggingu þar til lengri tíma litið vegna þess merkilega starfs sem þar fer fram, ekki síst á sviði rannsókna. Það átta sig ekki allir á að Hvanneyri er meiri rannsóknarstofnun en kennslustofnun, 60% starfseminnar þar eru rannsóknir. Ég er full bjartsýni varðandi framtíð Hvanneyrar. En við getum ekki sett aukið fjármagn inn í stofnanir nema fyrir liggi hvernig við ætlum í sameiningu að vinna okkur út úr þeim vanda sem við blasir. Annað er óábyrgt.