136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[16:28]
Horfa

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka enn og aftur hæstv. ráðherra fyrir svörin. Að sjálfsögðu eiga að liggja fyrir plön og einhver áætlun um hvernig mæta á rekstrarstöðu eins og er á Hvanneyri. Ég tel mig hafa upplýsingar um að það hafi farið fram töluverð vinna einmitt við það. Ég verð þó að viðurkenna, virðulegi forseti, að mér finnst svörin mjög rýr í roðinu hvað varðar stöðuna á næstu mánuðum og næsta árið. Ég verð að standa frammi fyrir því eins og það er. Mér finnst þetta ekki góð skilaboð til stjórnenda skólans um það hvernig þeir eiga að taka á þessu, hvernig þeir eiga að reka sína stofnun, en auðvitað hlýt ég að vona að lausn finnist á þessu máli sem allra fyrst vegna þess að staðan er afleit hjá stofnuninni. Ég hvet hæstv. ráðherra til að beita afli sínu, sem hún hefur í töluverðum mæli svona yfirleitt, til að leysa þetta mál því að þetta gengur hreinlega ekki upp svona, þessi stofnun verður að fá lausn sinna mála.