136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[16:31]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í upphafi máls míns vil ég vekja sérstaka athygli á vanda Landbúnaðarháskóla Íslands. Ef ég man rétt var það svo þegar stofnað var til Landbúnaðarháskólans — þ.e. þegar Bændaskólanum á Hvanneyri var breytt í þá stofnun og hann sameinaður Garðyrkjuskólanum og síðan ýmis rannsóknarstarfsemi færð til skólans — gerðu menn sér grein fyrir því þar sem skólinn var færður frá landbúnaðarráðuneyti til menntamálaráðuneytis að ýmis uppsafnaður vandi og kostnaður var til staðar sem mundi koma fram við sameininguna og flutning að Hvanneyri. Þá var því lofað sérstaklega að tekið yrði á þessum vanda þannig að skólinn sæti ekki til frambúðar uppi með mikinn halla í rekstrarumhverfi sínu og að framtíðarrekstur skólans væri tryggður með slíkri aðgerð.

Í andsvari hæstv. menntamálaráðherra áðan um þetta efni heyrði ég að hún gaf einhvers konar yfirlýsingu um að menntamálaráðuneytið væri vant að taka á svona vanda og það yrði gert. Hæstv. forseti, eftir því sem ég best veit, og ég vil fá það skýrt fram hjá hæstv. menntamálaráðherra þar sem hún er í salnum, hefur verið unnið að því að ná fram slíku fyrirkomulagi og skipulagi og stefna að því að rekstur Landbúnaðarháskóla Íslands verði í eðlilegu formi og rekstrarumhverfi til næstu ára. Eftir því sem ég best veit var sú vinna milli menntamálaráðuneytisins annars vegar og stjórnvalda skólans hins vegar vel á veg komin.

Mér finnst ekki hafa komið nægilega skýrt fram hjá hæstv. menntamálaráðherra hvernig þau mál liggja nú. Hins vegar hefur ráðherrann sagt hér að það stæði til að taka á þessum vanda. Nú skiljum við þó skólann eftir með uppsafnaðan vanda tveggja ára upp á að mig minnir samanlagt rétt rúmar 200 millj. kr. Þar að auki sýnist mér að í fjárlögunum setjum við hann í viðbótarrekstrarhalla á næsta ári, hæstv. forseti. Það er afar brýnt að á þessu sé tekið því ég get ekki séð að stjórnendur skólans geti haldið áfram að reka skólann í þeirri fjárhagsstöðu sem hann starfar nú. Þeir gætu hreinlega þurft að grípa til aðgerða þegar á næsta vetri, skera niður skólahald eða jafnvel stytta skólann og taka niður kostnað.

Ég hefði nú haldið, þar sem þetta er meginskóli bændastéttarinnar á Íslandi, að það væri ekki ráð að draga þar úr menntun. Eðlilegra væri að efla hana og ýmsar hliðargreinar sem hafa þróast samhliða landbúnaðinum. Þess vegna spyr ég og vil fá skýrt svar frá hæstv. menntamálaráðherra hvort skipuleg vinna hafi verið í gangi milli menntamálaráðuneytisins og skólayfirvalda á Hvanneyri um vanda skólans og einnig hvort menn hafi verið langt komnir í þeirri vinnu við að ná fram skipulagi og breytingum. Liggur þá ekki fyrir að það þurfi að taka m.a. á fjárhagsvandanum jafnvel þótt málin séu ekki frágengin? Er eðlilegt að skilja skólann eftir með þessi vandamál, tveggja ára uppsöfnun og framtíðarrekstur í uppnámi, við afgreiðslu fjáraukalaga og síðan fjárlaga sem væntanlega verða afgreidd líka hér í dag?

Þetta held ég að sé mjög misráðið, hæstv. forseti. Ég hélt satt að segja að málin væru það langt komin að það væri kominn einhvers konar grunnur fyrir það hvaða fjárveitingar þyrfti til þess að ákveðið skipulag, skipulagsbreytingar og vinnulag næðist fram sem mætti til framtíðar verða til þess að hægt væri að reka skólann innan þeirra framtíðarfjárlaga sem menn kæmust að niðurstöðu um.

Ég vænti þess að hæstv. menntamálaráðherra geti svarað því hvernig þessari vinnu var fram komið og hvort við eigum von á að tryggt verði að bændastéttin eigi áfram öruggan aðgang að menntun í þessum skóla, að þar verði áfram staðið að þeim rannsóknarþáttum sem þangað voru færðir þannig að þar verði áfram góð, fullnægjandi og öflug menntun hvað varðar landbúnaðinn í heild sem og garðyrkjuna og jafnframt að rannsóknarstarfsemin verði ekki alveg skorin niður við trog. Mér finnst mjög miður ef fara á þá leið að skera niður rannsóknarstarfsemina sem þangað var færð á sínum tíma. Á sínum tíma var gert samkomulag um að sameina þessar stofnanir og rannsóknarþáttinn að talsverðu leyti og ég taldi þá að það væri til bóta. Mér finnst afar miður ef þetta verður niðurstaðan, hæstv. forseti, og vil gera þetta mál að aðalefni í ræðu minni um fjáraukalögin vegna þess að mér finnst óforsvaranlegt að gengið sé frá þessum málum með því lagi sem það birtist okkur hér og nú.

Hæstv. forseti. Margt hefur verið óvanalegt við afgreiðslu fjárlaga og fjáraukalaga á þessu hausti. Vinnan hefur iðulega farið í að bíða eftir upplýsingum. Þær hafa komið seint og um síðir og þá verið fundað í hasti tvisvar, þrisvar sinnum til þess að kippa málunum af stað í næstu umræðu. Í raun og veru hafa menn ekki haft nægilegan tíma til þess að vinna þau verk sem fylgt hafa ýmsum breytingartillögum sem borist hafa frá ríkisstjórninni í þessum málum.

Á síðasta ári urðu miklar breytingar á högum landsmanna frá því að menn sögðu í bjartsýni á sl. vetri alveg fram á vordaga að engin sérstök vá væri fyrir dyrum eða hætta að því er varðaði horfur okkar Íslendinga yfir í það sem núna er, hæstv. forseti. Við erum í mjög miklum vanda og sjáum ekki hvernig okkur tekst að vinna úr þeim vandamálum á næsta ári.

Við horfum á mjög vaxandi atvinnuleysi þetta haustið og nú eru að ég held yfir 9.000 manns án atvinnu. Við sjáum misgengi hjá launafólki sem skuldar fé í sínu íbúðarhúsnæði þar sem lánin rjúka upp en greiðslugetan fer niður. Við horfum á fólk sem taldi sig hafa þokkalega eignastöðu á sl. ári í þeim íbúðum og húsnæði sem það hafði keypt og taldi að eigin eign í húsnæðinu væri kannski 15–20 milljónir en það er nú nánast komið niður í núll. Því miður eru ekki enn þá horfur á að við sjáum fyrir endann á þeim vandamálum sem fylgja verðtryggingu fjárskuldbindinga, miklu flökti íslensku krónunnar og falli hennar og síðan minnkandi atvinnu í landinu.

Við þurfum auðvitað að taka á þessu til framtíðar og það mun verða svo, hæstv. forseti. Snemma á næsta ári þurfum við að endurskoða fjárlögin sem við samþykkjum væntanlega hér í kvöld. Í því sambandi er rétt að minna á að við í minni hlutanum höfum lagt sérstaklega til að komið verði inn með ný fjáraukalög fyrir mars á næsta ári til þess að endurskoða það sem við aðhöfumst nú í þessari óvissu og hinar sérstöku afleiðingar falls bankanna. Öll vinna í sambandi við gerð fjárlaganna á þessu hausti hefur verið unnin í talsverðri tímaþröng og mikil bið hefur verið eftir upplýsingum. Störf þingsins hafa auðvitað einkennst af því, sérstaklega síðasta mánuðinn, að þannig var í pottinn búið.

Hæstv. forseti. Ég vænti þess að hæstv. menntamálaráðherra hafi tekið eftir þeim spurningum sem ég lagði fram en þær sneru sérstaklega að því hvar á vegi það samráð væri statt sem ég tel mig hafa upplýsingar um að hafi átt sér stað milli menntamálaráðuneytis og skólayfirvalda á Hvanneyri.