136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[16:42]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er laukrétt að mikið samráð hefur verið haft við menntamálaráðuneytið. Þessar tvær stofnanir, þ.e. Landbúnaðarháskólinn og ráðuneytið, hafa átt samstarf enda kveður svo á um í nýjum háskólalögum að ráðuneytið skuli gera samninga við háskóla og virkir samningar skuli vera á milli háskólanna. Reyndar er verið að vinna að því að klára slíkan samning og búa þannig um hnútana að annars vegar verði kennslusamningur og hins vegar rannsóknarsamningur og þá ekki tvíþættur eins og hefur verið við aðra háskóla, t.d. stóri rannsóknarsamningurinn við Háskóla Íslands. Þetta verður þríþættur samningur þannig að við tengjum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið líka inn í rannsóknirnar til þess að hafa hagsmunaaðilana, sem margir hafa talað um, einnig innan borðs. Það skiptir miklu máli að hafa þessar tengingar á hreinu.

Ég vil líka geta þess að í tengslum við þessa vinnu höfum við þurft að greina í sundur námið á Hvanneyri því að ákveðinnar sérstöðu gætir hvað varðar Landbúnaðarháskóla Íslands, ekki bara í rannsóknum heldur líka hvernig náminu er skipt upp. Skólinn er bæði á háskólastigi og framhaldsskólastigi. Það má í raun segja að 2/3 starfseminnar séu á skilgreindu háskólastigi og 1/3 starfseminnar sé framhaldsskólanám. Að þessu verðum við að gæta þegar við byggjum upp til framtíðar og mótum háskólasamning við skólann á Hvanneyri og þetta allt átti eftir að gera. Ég ætla ekki að segja að allt hafi verið í einni kös þegar komið var að skólanum en þetta var ekki sundurgreint eins og þarf að vera lögum samkvæmt til þess að við getum greint út heimildir til háskólastigs eða framhaldsskólastigs eftir atvikum.

Ég vil líka geta þess að í gangi hefur verið nefnd vegna málefna Keldna sem undirstrikar m.a. þá hugsun okkar að tryggja áframhaldandi rannsóknarstarfsemi á Hvanneyri. Keldnanefndin hefur m.a. skoðað að sú stofnun og (Forseti hringir.) starfsemin sem þar er verði með aðaláherslu á dýralækningar. (Forseti hringir.) Þá getur sú starfsemi m.a. tengst Landbúnaðarháskóla Íslands annars vegar og (Forseti hringir.) Háskóla Íslands hins vegar, herra forseti.