136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[16:50]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Hér er verið að halda síðustu ræðurnar og segja síðustu orðin um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2008 sem væntanlega verður afgreitt sem lög frá Alþingi áður en mjög langt um líður, innan stundar væntanlega.

Mig langar að blanda mér örstutt í þessa umræðu um nokkur atriði. Ég vil fyrst ræða aðeins um vinnubrögðin varðandi frumvarpið til fjáraukalaga en sama má segja að eigi við um frumvarpið til fjárlaga og fjárlögin sem við höfum verið með hér til umfjöllunar að undanförnu einnig.

Fjárlagafrumvarpið kom fram eins og lög gera ráð fyrir strax í byrjun október en viku eftir að það var lagt fram urðu þau miklu tíðindi að bankakerfið hér á landi hrundi með þeim gríðarlegu afleiðingum sem það hefur haft síðan í för með sér. Það má segja að vinnubrögðin hafi verið nokkuð óvenjuleg af þessum sökum þannig að fjárlaganefnd var nánast ekkert við vinnu við fjárlagafrumvarpið fyrr en í byrjun desember, svona efnislega má segja. Að sjálfsögðu ætla ég ekki að gera lítið úr því að hv. þingmenn sem sæti eiga í fjárlaganefnd hafi verið við vinnu sína. En það má segja að hin efnislega umfjöllun um fjárlagafrumvarpið hafi í raun ekki hafist fyrr en að ríkisstjórnin var tilbúin með nýjar tillögur sem ég tel að hafi verið þess eðlis og svo umfangsmiklar að það hafi í raun verið ígildi nýs fjárlagafrumvarps. Og hefði verið ástæða til að taka það þar af leiðandi til meðferðar sem slíkt, að ríkisstjórnin hefði dregið til baka hið fyrra fjárlagafrumvarp og mælt fyrir nýju frumvarpi.

Síðan var þetta mál að sjálfsögðu til meðferðar í hv. fjárlaganefnd og eins og hér hefur komið fram hafa menn lagt mikið á sig í þeirri vinnu og eiga að sjálfsögðu hrós skilið fyrir það að mörgu leyti við erfiðar aðstæður. Sérstaklega við þær aðstæður að hafa ekki haft undir höndum nægilega góð gögn, upplýsingar um það hvers væri að vænta varðandi skuldbindingar okkar sérstaklega inn í næsta ár og það á að sjálfsögðu sömuleiðis við um hluta málsins sem lýtur að fjáraukalögum fyrir árið 2008.

Ég tel að það sé ástæða fyrir okkur hér í þinginu að fara yfir vinnubrögðin í ljósi þess sem hér hefur gerst. Og að sjálfsögðu, eins og komið hefur fram í máli ýmissa þingmanna úr stjórnarandstöðunni, þá hefði í raun verið eðlilegt að þingið hefði afgreitt heimildarfrumvarp til greiðslna úr ríkissjóði til þess að standa undir þeim skuldbindingum sem ríkissjóður hefur við launagreiðslur og samningsbundnar greiðslur fyrstu daga og vikur nýs árs og að menn hefðu tekið sér eðlilegan tíma til þess að fara yfir allar forsendur fjárlagafrumvarps og fjáraukalagafrumvarps með sambærilegum hætti og venjan er. Þinginu hefði þá gefist þeir tveir mánuðir sem venjulega fara í þessa vinnu líka við þau frumvörp sem við erum að afgreiða núna því það er bara sá tími sem þingmenn þurfa til þess að fara í saumana á öllum þeim atriðum sem hér eru til umfjöllunar.

Nú geri ég mér ljóst að það eru áform ríkisstjórnarinnar að afgreiða þessi mál nú á þessum klukkutímunum áður en jólaleyfi þingsins hefst. Þess vegna vil ég frekar koma með það sjónarmið sem áréttingu til forustu þingsins og þingnefndanna að núna strax í upphafi nýs árs verði farið yfir þessi vinnubrögð og hugað að hvaða lærdóma við getum dregið af þeim og hvernig við eigum að standa að málum til þess að bæta vinnubrögðin í þinginu. Ég held að það sé geysilega þýðingarmikið að við gefum okkur tíma til þess.

Ég efast ekkert um að hv. þingmenn úr stjórnarflokkunum eru í raun sama sinnis, að fyrirheitin hér í fyrrahaust um bætt vinnubrögð við fjárlagagerðina hafa ekki gengið upp. Þar er ekki endilega við fjárlaganefndarmenn að sakast. Þar hafa margir þættir haft áhrif og við verðum að sjálfsögðu að horfa til þess en engu að síður hefði verið hægt að bregðast við þessu með öðrum hætti hvað vinnuna varðar hér á vettvangi þingsins og ég tel að það hefði verið affarasælla að gera það.

Mig langar aðeins að nefna málefni Keldna vegna þess að hæstv. menntamálaráðherra er hér í salnum og í andsvari við hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson áðan kom hún inn á málefni tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og gat um vinnu sem þar hefur verið í gangi við endurskoðun laganna og hugmynda um að leggja af lögin um Keldur og breyta starfseminni og færa hana beint undir heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. Í tilefni af þeirri umræðu sem hér hefur farið fram um landbúnaðarháskólann á Hvanneyri nefndi hún einnig tenginguna við Hvanneyri.

Ég vil rétt stuttlega segja um það mál að ég held að það þurfi að liggja mjög rækilega yfir því máli öllu og gefa tóm til þess að fjalla um það hér á vettvangi Alþingis þegar þar að kemur. Tilraunastöðin á Keldum er í raun og veru, vil ég leyfa mér að fullyrða, sú vísindastofnun hér á landi sem er hvað mest og best þekkt á alþjóðavísu á sinni vísindagrein og hefur verið það um áratugaskeið og grundvallast á brautryðjandastarfi sem dr. Björn Sigurðsson kom á laggirnar á sjötta áratugnum og hefur alla tíð síðan verið í fremstu röð á sviði læknisfræði og dýralæknisfræði og er þekkt sem slík og má segja að sé eins konar vörumerki fyrir íslenskar vísindarannsóknir á heilbrigðissviði um allan heim.

Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að það sé í fyrsta lagi ákaflega þýðingarmikið að halda því nafni sem er bundið við þá stofnun. Ég tel að í því felist mikil verðmæti í sjálfu sér, mikill auður. Þar sem ég á sæti í nefnd sem hæstv. heilbrigðisráðherra skipaði til að fjalla um uppbyggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss þar sem þetta mál hefur að sjálfsögðu komið talsvert til umræðu þá hef ég lýst þeirri skoðun minni þar að það sé mikilvægt að halda í þá þekkingu og í þau verðmæti sem felast í þeirri stofnun og í því starfi sem þar hefur farið fram og mun gera það áfram. Ég tel þess vegna að það verði að fara mjög varlega í allar hugmyndir um að slíta þá stofnun í sundur. Ég veit ekki hvort ég átti að skilja hæstv. menntamálaráðherra í andsvarinu við hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson þannig að það fælist í hennar orðum. Ég er ekki viss um það en ég vona a.m.k. að svo sé ekki því ég óttast að það mundi hafa mjög slæmar afleiðingar fyrir það vísindasamfélag sem þar er vegna þess að það sem þar má segja að sé stóri kosturinn og hefur gefið þessari stofnun það sem hún er, það er að þar koma saman fjölþættar vísindagreinar og njóta góðs hver af annarri. Þess vegna tel ég afar þýðingarmikið að við stöndum vörð um það rannsóknar- og vísindastarf og reynum að halda því sem best á lofti þó að það sé undir heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands eins og hugmyndir eru um, en ég legg áherslu á að starfsemin verði ekki slitin í sundur því það mun kippa grundvellinum að verulegu leyti undan þessari merku vísindastofnun. Þetta vildi ég segja um þetta mál.

Það sem ég vildi síðan segja um fjáraukalagafrumvarpið, þetta tengist að sjálfsögðu, það er eðlilega nátengt fjárlögunum fyrir næsta ár, er auðvitað sú óvissa sem við stöndum frammi fyrir varðandi skuldbindingar okkar landsmanna, bæði okkar sem erum hér og störfum í dag og jafnframt komandi kynslóða vegna bankahrunsins og áfallanna sem við höfum orðið fyrir í efnahagslífinu og atvinnulífinu.

Við sjáum hér verulega auknar heimildir til handa fjármálaráðherra til að taka lán. Lítil tillaga fór fram frá meiri hluta fjárlaganefndar við fjáraukalagafrumvarpið við 1. tölulið 3. gr. þar sem í stað orðanna allt að 234.000 millj. kr. komi allt að 660.000 millj. kr. Reyndar fipaðist hv. formaður fjárlaganefndar aðeins á núllunum þegar hann gerði grein fyrir þessu og gleymdi þremur núllum. Þannig að upphæðirnar í hans munni voru fyrst 234 millj. kr. upp í 660 millj. kr. en áttu að sjálfsögðu að vera milljarðar kr. Það er kannski lítið á milli vina en hv. þingmaður leiðrétti sig eftir frammíkall frá undirrituðum.

Hér er um að ræða gríðarlega skuldsetningu, í raun heimildir. Þetta er að vísu til ýmissa verkefna, þarfra verkefna að sjálfsögðu, en hér er auðvitað um að ræða miklar skuldbindingar. Lætur nærri að það séu um 2 milljónir á hvert mannsbarn á landinu og rúmlega það, kannski 8–10 milljónir á hverja fjölskyldu í landinu. Hér eru því auðvitað gríðarlega miklar skuldbindingar sem við erum að takast á hendur. Þá er ótalið það sem hér hefur komið fram, þ.e. ótaldar skuldbindingarnar vegna Icesave-reikninganna svokölluðu og bankahrunsins eða endurreisnar bankanna og annað slíkt.

Það sem ég vil leyfa mér að leggja áherslu á í þessari umræðu er fyrst og fremst það að það er mikið sem er ekki komið fram í tengslum við efnahagsfjárhæð ríkissjóðs á næsta ári eða næstu árum. Þegar hefur verið boðað, m.a. af ráðamönnum eða forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar, að það þurfi að ráðast í endurskoðun fjárlaganna og vinnu við fjárlagafrumvarp fyrir árið 2010, nú þegar í byrjun næsta árs. Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar höfum lagt það til og talað fyrir því að það verði í raun þegar hafin vinna við endurskoðunina þannig að það komi frumvarp til nýrra fjáraukalaga fyrir 1. mars á næsta ári en miðað við það hvernig stjórnarliðar hafa greitt atkvæði hér til þessa, að allar hugmyndir frá stjórnarandstöðunni eru felldar hversu góðar og gagnlegar þær kunna nú samt að vera, þá á ég ekkert sérstaklega von á því að þetta verði samþykkt. En ég vil samt segja við þá stjórnarþingmenn sem eru í salnum að ég tel að hugmynd af þessu tagi væri algerlega útlátalaus af hálfu stjórnarinnar og mundi sýna að hún væri reiðubúin til þess að vinna með stjórnarandstöðunni. Við höfum margoft boðið það í stjórnarandstöðunni að vinna með ríkisstjórninni að þeim mikilvægu viðfangsefnum sem blasa við þjóðinni allri, ekki bara kjósendum ríkisstjórnarflokkanna heldur þjóðinni allri, líka þeim sem styðja og hafa kosið stjórnarandstöðuflokkana og þeim fer fjölgandi dag frá degi eins og kunnugt er í skoðanakönnunum. Það væri því algerlega útlátalaust af hálfu stjórnarinnar að fallast á einhverja slíka málsmeðferð og sýna í verki að stjórnin væri reiðubúin til þess að vinna með stjórnarandstöðunni.

Hér eru geysilega mikil verkefni fram undan. Þau er ekki einföld og það er enginn öfundsverður sem stendur í þeirri vinnu en hún er óhjákvæmileg. Við eigum að leggja saman kraftana eins og við mögulega getum og sérstaklega er ábyrgðin mikil hjá þeim sem fara með meiri hlutann í ríkisstjórn og Alþingi, að taka í útréttar hendur og sýna það að stjórnin meinar líka eitthvað þegar hún segir sýknt og heilagt að við séum öll í sama báti. Þá þurfa allir að leggjast á árarnar og þá þarf að vinna með stjórnarandstöðunni líka. (Gripið fram í.) Nei, ég ætla ekki að leggja árar í bát.

Ég tel að við getum unnið okkur út úr þeirri stöðu sem við erum í, tvímælalaust. Við eigum ekki að láta eins og hér sé allt á vonarvöl eða að þjóðin sé á barmi gjaldþrots þótt vissulega séu erfiðleikar fram undan. Við eigum að takast á við þennan vanda þótt við kunnum að hafa mismunandi áherslur og mismunandi skoðanir á því hvernig við gerum það. En það er öllum fyrir bestu og sérstaklega íslenskri þjóð að stjórnmálalífið sýni að það sé þess megnugt að leggja saman kraftana til heilla fyrir núlifandi Íslendinga og komandi kynslóðir. Ég held að allur almenningur í landinu kunni engri ríkisstjórn, hversu stór sem meiri hlutinn kann að vera í atkvæðum talið á Alþingi, þakkir fyrir að hafna samstarfi og samvinnu við alla aðila í samfélaginu, hvort sem það er stjórnarandstaðan, verkalýðshreyfingin, sveitarfélögin eða hverjir aðrir. Það er mikilvægt að við leggjumst öll á eitt og þá er ég sannfærður um að við getum unnið okkur út úr þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir og sem þjóðin sjálf ber enga ábyrgð á en (Forseti hringir.) en verður bersýnilega engu að síður að axla.