136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[17:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir þessar upplýsingar. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég tel að það sé einkum og sér í lagi mikilvægt að starfsemin haldist sem ein heild. Ég þekki þar til og veit að það er eitt af því sem starfsfólkið á þessum vinnustað telur að séu hvað mest verðmæti fólgin í, að halda starfseminni sameinaðri. Það var ekki síst það sem ég lagði áherslu á í máli mínu.

Ég tek undir það og finnst spennandi að starfsemin geti verið hluti af heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands. Ég veit ekki hvort það er nauðsynlegt að leggja af lögin um Keldur, sem eru sérstök lög, eða hvort það væri nægilegt að gera á þeim breytingar til þess að samræma þau þeim hugmyndum sem uppi eru um að Keldur fari undir heilbrigðisvísindasviðið, hvort það er gert með samningi eins og hæstv. menntamálaráðherra gat um eða einhvers konar viðauka. Það kann vel að vera að það sé nægilegt en ég legg áherslu á að mjög sé vandað til þessarar vinnu og reynt að tryggja að sem allra best sátt og samstaða takist um þær breytingar sem bersýnilega eru í farvatninu.