136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[17:08]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir þessi síðustu orð hv. þingmanns. Það þarf að reyna að ná sem víðtækastri samstöðu um þetta en við verðum að halda áfram með málið. Ég held að það skipti mjög miklu máli fyrir starfsemina á Keldum að starfseminnar verði sérstaklega getið í þessum stóra rannsóknarsamningi sem er við Háskóla Íslands. Þar verði sérviðauki sem bæði starfsmenn og forstöðumaður Keldna hafa haft aðgang að og hafa samið í samvinnu við annars vegar háskólann og hins vegar menntamálaráðuneytið.

Varðandi síðan umræðu okkar áðan í þingsal um hvernig við sjáum háskólastarfsemina og rannsóknarstarfsemina þróast á næstu árum held ég að það sé algjörlega óumflýjanlegt að við reynum að fara yfir sviðið í heild, ekki bara með tilliti til þessa erfiða efnahagsástands heldur einnig vegna þess að við verðum sterkari með því að vinna betur saman. Ég held að þessar þrjár einingar, Háskóli Íslands, Keldur og Hvanneyri, geti unnið betur saman en hefur verið gert fram til þessa. Hvernig það verður síðan gert í framtíðinni, hvort það verður með sameiningu eða í öðru formi skal ég ekki segja. Ég held að við verðum að líta til þess hvaða möguleika við eigum til þess að nýta stofnanir okkar á þessu sviði sem best þannig að út úr þessu komi einhver ein heild sem verður enn sterkari alþjóðlega. Við erum náttúrlega, eins og hv. þingmaður kom inn á áðan, mjög sterk á þessu sviði og Keldur eru viðurkennt nafn á alþjóðavísu.

Ég mun beita mér fyrir því — og hv. þingmaður kom líka að því áðan — að Alþingi verði upplýst og að við ræðum um málefni Keldna þegar fram í sækir, þegar fyrir liggja endanlegar tillögur frá nefndinni sem fjallar um málefni tilraunastöðvarinnar.