136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[17:13]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, þetta er í raun og veru í samræmi við það sem ég ræddi áðan um þessar miklu hækkanir á lánsfjárheimildum. Það sem ég benti fyrst og fremst á í máli mínu var að við erum sem sagt að fara inn í tímabil þar sem verið er að skuldsetja ríkissjóð geysilega mikið og er ekki allt talið enn. Það er það sem við vitum öll að það er lagt upp með mikinn halla og mikla lánsfjárþörf og lántökur, miklar skuldbindingar í vaxtakostnaði á næstu árum, tugi milljarða, sem er auðvitað mjög þungbært fyrir þjóðarbúið. Hv. þm. Gunnar Svavarsson staðfesti það raunverulega þegar hann talaði um endurskoðun í febrúarmánuði á næsta ári. Það sem ekki er komið fram enn þá nema bara á skotspónum eru skuldbindingarnar vegna ævintýranna í Bretlandi, Hollandi og víðar með Icesave-reikningana. Það er viðbót sem á eftir að leggjast á landsmenn og verður auðvitað mjög þungt.

Þess vegna held ég að sé einmitt mjög mikilvægt að fjárlögin fyrir næsta ár og þessi mál öll verði komin til endurskoðunar og umræðu strax á nýju ári á vettvangi þingsins og á vettvangi fjárlaganefndar. Þannig verði strax farið að vinna að málum svo að við vitum betur hvað er í húfi eða hvað er um að tefla. Það verði ekki bara beðið fram á næsta haust, til haustsins 2009, til að taka þessi mál aftur til umfjöllunar. Við verðum að hafa þau öll uppi á borðinu og þjóðin verður að vita hvaða skuldbindingar hún er að undirgangast. Það tekur enginn á sig skuldbindingar í heimilisbókhaldi sínu eða felur umboðsmanni sínum að gangast undir skuldbindingar fyrir sína hönd án þess að vita hvað það er sem liggur þar að baki. Það á auðvitað ekkert síður að eiga við um ríkissjóð, hið opinbera og landsmenn (Forseti hringir.) sem eru að sjálfsögðu á bak við ríkissjóðinn.