136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[17:22]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. formanni fjárlaganefndar kærlega fyrir þessi svör. Ég verð að segja eins og er að það kemur mér ekkert sérstaklega á óvart að ekki skuli hafa komið fram tillaga frá hæstv. heilbrigðisráðherra eða heilbrigðisráðuneytinu um að styrkja rekstrarstöðu SÁÁ. Mér hefur fundist anda köldu gagnvart þessari stofnun og ég verð að segja að mér þykir það miður.

Ég fagna því hins vegar, sem hv. formaður segir hér, að möguleiki sé á því með breyttum vinnubrögðum að fara yfir þessa hluti með öðrum hætti á komandi ári og grípa þá fyrr inn í hlutina, með styttra millibili.

Ég endurtek að ég efast um stuðning hæstv. heilbrigðisráðherra við þessa starfsemi og efast reyndar um stuðning Sjálfstæðisflokksins við SÁÁ og þá þjóðþrifastarfsemi sem þeir hafa rekið hér um 25–30 ára skeið. Ég vil í því sambandi minna á útboðið sem hægri stjórnin í Reykjavík viðhafði hér um úrræði fyrir skjólstæðinga Byrgisins. Þá bauð SÁÁ fram áralanga þekkingu og reynslu og miklu ódýrari samning en vildarvinirnir í Heilsuverndarstöðinni ehf. sem fengu samninginn en fóru því miður á hausinn.

Ég velti því sem sagt fyrir mér, herra forseti, hvort það geti verið að rekstrarformið hjá SÁÁ sé eitthvað að þvælast fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra. Að það þurfi að einkavæða SÁÁ og gera það að hlutafélagi til þess að það hljóti náð fyrir augum hans.