136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[17:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræddum þetta mál hér í dag við 2. umr. og þá lagði ég fram breytingartillögu um að þingmenn mættu velja sér lífeyrissjóð, þeim væri heimilt að velja sér lífeyrissjóð, það var nú ekki annað. Ég gat þess jafnframt að það eru eiginlega í gangi fjögur mismunandi lífeyriskerfi í landinu. Það er í fyrsta lagi hin lokaða B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem er með afskaplega góð réttindi sem eru tengd eftirmannsreglunni eða launavísitölu. Þar eru alls konar forréttindi, 95 ára regla, 30 ára iðgjaldagreiðslutími o.s.frv. Þar er óbreytt skuldbinding sennilega um 200 milljarðar kr. sem ríkið hefur ekki greitt.

Svo er það A-deildin en þar er iðgjaldið 15,5%, þ.e. töluvert hærra en á almennum markaði þar sem iðgjaldið er 12%. Í báðum þessum deildum eru föst réttindi og breytilegt iðgjald, þ.e. ríkisins, skattgreiðenda. Svo getur fólk verið í Eflingu og starfað hjá ríkinu. Þá eru greidd 15,5% samkvæmt sérstöku samkomulagi inn í lífeyrissjóðinn en réttindin eru eftir sem áður breytileg. Ef sjóðurinn fær skell eins og núna munu réttindi verða skert á meðan iðgjald ríkisins er hækkað hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Svo er það fólk sem er utan starfa hjá ríkinu, þ.e. 80% af kjósendum okkar. Þeir eru í almennum lífeyrissjóðum, það eru borguð 12% fyrir þá, þeir borga sjálfir 4% og atvinnurekandi 8% og þar ekkert annað en eignin sem stendur á móti lífeyrinum. Eignin hefur rýrnað mikið í áfallinu núna og mun rýrna enn frekar ef hv. þingmenn Vinstri grænna ná sínu fram sem þeir auglýsa hér, herra forseti: „VG vill setja þak á hækkun höfuðstóls verðtryggðra lána.“ Þetta var í Morgunblaðinu 8. desember undir fyrirsögninni „Talað fyrir bjartsýni.“ Það er ekki bjartsýni hjá lífeyrisþegum því að það yrði að skerða þá til viðbótar við skerðinguna sem varð vegna áfalls bankanna ef þetta næði fram.

Þetta er sem sagt margslungið og verðtrygging er ekkert voðalega einfaldur hlutur. Ef vextir hefðu verið óverðtryggðir og menn ætluðu ekki að hlunnfara sparifjáreigendur, þyrftu vextir að vera 20% í dag. Það þýðir að maður sem skuldar 30 millj. kr. lán borgar 6 milljónir bara í vexti. Það getur hann að sjálfsögðu ekki. Verðtryggingin er því í sjálfu sér mjög góð fyrir skuldarana.

Þegar greidd voru atkvæði áðan greiddu 45 þingmenn hv. atkvæði gegn tillögu minni og mig langar til þess að spyrja: Hvað olli því? Hvers vegna greiddu þeir atkvæði gegn tillögu minni? Átta sátu hjá. Ég hef spurt nokkra og þeir hafa svarað ýmsu. Ég ætla ekkert að fara að vitna í það neitt sérstaklega en ég held að það geti verið ýmislegt sem olli þessu.

Í fyrsta lagi gekk tillagan út á að þessi réttindi yrðu metin og launin hækkuð hjá þeim sem mundu velja að ganga í almennan lífeyrissjóð. Þá kæmi í ljós hvers virði þessi réttindi eru. Það tel ég vera mjög mikilvægt skref í átt til gagnsæis sem er sífellt meiri krafa um í þjóðfélaginu. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur þingmaður sé á móti því. Það getur vel verið að það sé þannig en ég held ekki.

Svo er það spurningin um val á lífeyrissjóði. Tillagan gekk út á að þingmenn gætu valið sér lífeyrissjóði og ef menn ætluðu að gæta jafnræðis fyrir kjósendur okkar ættu þeir að geta valið sér lífeyrissjóð líka. Þá spyr maður sig: Af hverju ekki? Af hverju skyldi fólk ekki velja sér lífeyrissjóð? Hv. þm. Ögmundur Jónasson svaraði því eiginlega. Hann sagði að þetta væri stéttarfélagslegt atriði að geta haldið fólki, sauðunum, innan réttra rétta, inni í réttum dilk. Þetta væri í rauninni til að tryggja stéttarfélögin og stéttarkerfið allt saman. Það held ég að sé hárrétt hjá hv. þingmanni. Það er kannski þess vegna sem þingmenn greiddu ekki umsvifalaust atkvæði með þessu, það var vegna þess að þeir eru hræddir við stéttarfélögin, ASÍ og SA og vald þeirra.

Hverjir skyldu tilnefna í stjórn lífeyrissjóðanna aðrir en stéttarfélögin og SA, atvinnurekendur? Það er svo merkilegt. Þarna er valdið í þjóðfélaginu, þarna eru peningarnir, þangað streyma 12% af launum allra Íslendinga inn. Þeir eru ávaxtaðir þarna og þetta gefur gífurleg völd. Það skyldi nú ekki vera að völdin væru á bak við þetta?

Svo eru sum stéttarfélögin að breytast grímulaust í stjórnmálaflokka. Það er náttúrlega annar handleggur, herra forseti, að opinberum starfsmönnum er gert með lögum að borga í opinber stéttarfélög sem mynda svo BSRB, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Svo er BSRB farið að koma með ályktanir og túlkanir út og suður í pólitískum málum sem ég er ekki viss um að allir opinberir starfsmenn séu sammála um. Peningar þeirra eru sem sagt notaðir til að keyra á málefni og skoðanir sem þeir eru andsnúnir. Hvar er eiginlega skoðanafrelsi stjórnarskrárinnar, herra forseti? Samkvæmt lögum má nota þessa peninga og þeir eru misnotaðir til þess að birta auglýsingar gegn ákveðnum pólitískum atriðum. Þetta hefur lengi verið gert en með betri grímu. Nú er þetta grímulaust.

Svo segja sumir — og hv. þingmaður, Ögmundur Jónasson, sagði það eiginlega — að það væri betra að stjórnir lífeyrissjóðanna, stéttarfélögin og þess háttar sæju um þetta. Fólk ætti ekkert með að kjósa stjórnir. Nú getur vel verið að ég hafi túlkað orð hans fullstrangt en ég veit ekki til þess að ég hafi nokkurn tíma kosið hv. þm. Ögmund Jónasson til að fara með ellilífeyri minn en hann gerir það samt. Sem stjórnarmaður í LSR fer hann með deild alþingismanna og þar með ávaxtar hann fé mitt. Nú getur vel verið að hann sé þvílíkur snillingur á fjármálasviðinu, að peningarnir séu vel geymdir, en ég vildi gjarnan hafa um það að segja hverjir fara með peningana mína. Ég geri ráð fyrir að það séu mjög fáir Íslendingar sem hafi kosið menn til að fara með þetta fjármagn sitt. Það er kannski hjá Lífeyrissjóði verkfræðinga og einhverjum einstökum lífeyrissjóðum. (Gripið fram í.)

Svo getur vel verið — ég er að velta því fyrir mér af hverju þingmenn greiddu atkvæði gegn þessu — að hv. þingmenn vilji ekki deila kjörum með 80% kjósenda sinna sem þurfa þá að finna fyrir því hvernig tilfinning það er það að sjá lífeyrisréttindin skerðast varanlega. Hvernig tilfinning er það, herra forseti? Við þingmenn munum ekki kynnast því nema þeir sem eiga réttindi úti á hinum almenna markaði. Þar á ég sennilega yfir helminginn af mínum réttindum. Ég mun þurfa að horfast í augu við þetta og ég vil ekki vera þvingaður inn í þennan forréttindaklúbb hér eins og gert er með núverandi lögum. Ég má ekki velja mér t.d. Lífeyrissjóð verslunarmanna.

Kannski vilja hv. þingmenn ekki horfa framan í þá skerðingu sem mun koma. Svo getur vel verið að málið sé ekki nægilega rætt og það er vonandi ástæðan. Ég held að það sé ástæðan fyrir því að menn kusu gegn þessu, þessir 45 þingmenn. Ég vona að það sé ástæðan. Ég skora á menn að spyrja þessa þingmenn að því af hverju þeir greiddu atkvæði gegn þessu. Það getur vel verið að þetta sé ekki nægilega vel rætt en það eru mótmælafundir alla daga, það er mikil gerjun í þjóðfélaginu. Menn mótmæla ríkisstjórninni, Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu, fjölmiðlum, Alþingi, stjórnvaldinu, stéttarfélögum o.s.frv. Það er sett spurningarmerki við allt valdið. Ég held að við hv. þingmenn þurfum að svara þessu kalli, við þurfum að breyta hlutum. Við þurfum t.d. að breyta því hvernig er háttað með stéttarfélögin, hvernig kosið er inn í stéttarfélögin. Við þurfum að breyta því hvernig réttindi eru birt eins og t.d. hjá þingmönnum, þeir segja að það liggi ekki á borðinu hvers virði réttindin eru. Við þurfum að svara kalli mótmælenda á Austurvelli, við þurfum að svara kalli þjóðarinnar og upplýsa um marga hluti eins og t.d. stéttarfélögin, lífeyrisréttindi þingmanna o.s.frv. Þessi tillaga gekk út á það. Það þarf að skoða fjölmiðla líka. Hvernig birta þeir fréttir af hlutum og hverjir eiga þá?

Það er smáglæta í dæminu því að í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar hv. kemur fram, með leyfi herra forseta:

„Innan nefndarinnar komu fram sjónarmið um ýmsar frekari breytingar eða aðrar útfærslur á fyrirkomulagi eftirlauna þeirra sem undir þessi lög heyra og telur meiri hluti allsherjarnefndar að slík skoðun þurfi að eiga sér stað.“

Þeir viðurkenna að það sé ástæða til að skoða þessi réttindi og ég ætla að vona að menn finni einhverja lausn þannig að réttindin séu þá uppi á borðinu.

Ef tillaga mín yrði samþykkt kæmi í ljós hvers virði þessi réttindi eru. Þá munu opinberir starfsmenn vilja það sama. Þeir munu líka vilja vita: Hvers virði eru réttindi mín og get ég hugsanlega fengið hærri laun með venjuleg lífeyrissjóðsréttindi eins og hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna t.d.? Þá er ég hræddur um að brotni undan valdi hv. þm. Ögmundar Jónassonar, ég er hræddur um að það fari ýmislegt að hrynja þar.

Ég held að við hv. þingmenn ættum að nota tækifærið sem þessi gerjun í þjóðfélaginu, sem fall bankanna leiðir af sér, skapar, þessa reiði sem nú er að breytast yfir í umræðu. Við eigum að nota tækifærið í þessari umræðu og breyta fullt af hlutum. Við eigum að breyta eftirlitskerfi með hlutafélögum, við eigum að breyta bönkunum, við eigum að breyta stéttarfélögunum og lífeyrissjóðunum og við eigum að nota tækifærið og byggja upp þjóðfélag sem er heiðarlegt og gagnsætt. Þá getum við grætt á þessu áfalli eins og mögulegt er því að áfallið er mjög mikið. Það er mikil gerjun og þjóðin krefst þess að hlutunum sé breytt, gömlum hlutum sem gengið hafa áratug eftir áratug eins og stéttarfélögin þar sem lýðræðið er mjög lítið. Við þurfum að breyta því og við þurfum að breyta lífeyriskerfinu og lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna og lífeyrisréttindum þingmanna.