136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[17:44]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef ég væri hv. þingmaður mundi ég fara varlega í að lofa hér og prísa eða mæra einkavæðingu bankanna og halda því fram að hún hafi innleitt hér eitthvað meiri heiðarleika eða gegnsæi í það samfélag sem við búum við en áður þekktist.

Ég skal hins vegar styðja hv. þingmann jafnt nótt sem dag í því að byggja hér upp heiðarlegra viðskiptaumhverfi og gegnsærra. Liður í því eru tillögur okkar Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs sem við höfum sett fram á síðustu vikum og missirum sem hv. þingmaður vitnaði til í ræðu sinni. Ég kom hingað í andsvar við hv. þingmann vegna þess hvernig hann vitnaði til þeirra hugmynda sem við tölum þar fyrir.

Við tölum þar fyrir hugmyndum sem eru tímabundnar, jafntímabundnar og ríkisstjórnin leggur til að verði varðandi búvörusamninginn. Við viljum bara tryggja að fólk kaupir sér íbúðir í þessu árferði og að við þessar aðstæður þurfi ekki að taka allan þann verðbólgukúf sem er núna og verður á næsta ári inn í íbúðarlánin sín. Við viljum tryggja að sá kúfur verði tekinn af vegna þess að við teljum eðlilegt að stundum eigi það að vera þannig að bankarnir eða lánastofnanirnar missi eitthvað af því fé sem þær lána. Það verði þá þeir sem fá lánin sem eigi að geta notið þess, það sé ekki alltaf sá sem á fjármunina sem eigi að fara með allt gulltryggt og vera bæði með belti og axlabönd.

Þetta veit hv. þingmaður auðvitað mætavel. Hann þekkir þær hugmyndir sem við höfum talað fyrir og hann þarf ekki að gera úr þeim neitt annað en það sem í þeim er.