136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[17:58]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var kosinn af hálfu BSRB og get fullvissað hv. þm. Pétur H. Blöndal um að lýðræðisleg aðkoma verkalýðsfélaganna, þar með BSRB, stendur mjög traustum fótum. Á öllum aðalfundum, á öllum þingum og reglulega á stjórnarfundum eru málefni lífeyrissjóðanna tekin til athugunar, skoðunar og umræðu. Í miklu ríkari mæli er um lýðræðislega aðkomu að ræða en í nokkru hlutafélagi eða nokkru öðru formi sem ég þekki til.

Fyrr í dag átti hv. þm. Pétur H. Blöndal kost á að greiða því atkvæði að lífeyrisréttindi þingmanna, ráðherra, svokallaðra æðstu embættismanna og þar með talið forseta Íslands yrðu færð undir A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, sem er fullkomlega gagnsær sjóður, fullkomlega sjálfbær sjóður. Hann greiddi atkvæði gegn þessu. Hann hefur hins vegar með atkvæði sínu enn og aftur staðfest sérréttindin. Kemur síðan upp í pontu vælandi um að hann langi svo inn í einhvern sjóð þar sem hægt sé að skerða réttindi hans og reynir að drepa málinu á dreif og skapa þá mynd að hann standi einhvern veginn utan þess sem hér er að gerast, utan þeirrar atburðarásar sem hér á sér stað.

Hann átti þess kost og á þess enn kost við atkvæðagreiðslu á eftir að hafna sérréttindafrumvarpi Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og reyndar fulltrúar allra stjórnarandstöðuflokkanna á þingi lögðum fram tillögu þar sem kostur gafst á að velja þá leið að við færum inn í gagnsætt kerfi almennra starfsmanna ríkisins. Þessu hafnaði hv. þm. Pétur H. Blöndal.