136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

262. mál
[18:19]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er komið til lokaatkvæðagreiðslu frumvarp til laga sem flutt er af menntamálanefnd og varðar Ríkisútvarpið. Ég vil lýsa því yfir og ítreka það sem ég sagði í 2. umr. um þetta mál að ég og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem sitjum í menntamálanefnd erum sátt við þessar málalyktir, þ.e. að áfram verði unnið í málinu um Ríkisútvarpið í hv. menntamálanefnd. Þar verður áfram tekist á um þau mál sem það varðar. Útvarpsgjaldið sem hér er fjallað um verður afgreitt með þeim hætti að um tímabundna ráðstöfun er að ræða. Við lítum svo á að með því að afgreiða málið á þennan hátt lýsum við í sjálfu sér hvorki yfir stuðningi við hið breytta rekstrarform Ríkisútvarpsins né við það fyrirkomulag gjaldheimtu sem komið var á með þeim lögum sem samþykkt voru fyrir tveimur árum síðan. En þetta (Forseti hringir.) fyrirkomulag á afgreiðslu málsins er okkur að skapi og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í menntamálanefnd munum því styðja þennan framgangsmáta.