136. löggjafarþing — 68. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[19:26]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Nú þegar við göngum til lokaafgreiðslu fjárlaga liggur ljóst fyrir að við í stjórnarandstöðunni höfum átt litla aðkomu að þessu máli. Upplýsingar hafa borist seint og illa frá ríkisstjórn og fjárlagavinnan hefur þar af leiðandi verið mjög óvanaleg.

Í samræmi við það munum við ekki greiða frumvarpinu atkvæði. Við vekjum hins vegar athygli á breytingartillögu okkar í minni hlutanum um að fyrir 1. mars á næsta ári verði lagt fram fjáraukalagafrumvarp, m.a. til þess að fara yfir það sem vissulega hefði mátt betur fara við þessa afgreiðslu og til að taka á því sem enn er óséð og óskrifað.