136. löggjafarþing — 68. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[19:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Nú líður að lokum einhverrar erfiðustu fjárlagavinnu og -afgreiðslu sem um getur hér á hv. Alþingi. Ástæðan er auðvitað sú að við upplifum heimskreppu og það sem hefur mest áhrif hér á landi er fall íslensku bankanna. Þetta setur að sjálfsögðu mark sitt á fjárlög íslenska ríkisins fyrir árið 2009 og mun setja mark sitt á fjárhag ríkisins á komandi árum.

Við gerum ráð fyrir því að árið 2009 verði dýpsta ár kreppunnar. Þess vegna hefur verið reynt að ganga varlega fram til þess að ríkið dýpki ekki kreppuna með sínum aðgerðum. Væntanlegar niðurstöðutölur þessara fjárlaga eru því þannig að útgjöld ríkisins, hin hefðbundnu rekstrar-, tilfærslu- og fjárfestingargjöld ríkissjóðs, eru á sama útgjaldastigi og á árinu 2008. Ég held að það sé vel við unandi miðað við allar (Forseti hringir.) aðstæður.