136. löggjafarþing — 68. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[19:35]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þessi breytingartillaga felur í sér að Alþingi skuldbindur sig til að endurskoða fjárlögin fyrir árið 2009 verði þau samþykkt, eins og hér stefnir í, og verði þau endurskoðuð eigi síðar en fyrir 1. mars á næsta ári með sérstökum fjáraukalögum.

Það er deginum ljósara að gögnin sem fjárlagafrumvarpið byggir á eru afar ófullkomin, það skeikar hundruðum milljarða króna, ef ekki þúsundum. Þess vegna leggjum við áherslu á að Alþingi sé skuldbundið til að taka málið upp strax að loknu jólahléi og nýtt frumvarp verði unnið. Það er tillaga okkar í minni hlutanum og mér finnst með endemum ef stjórnarmeirihlutinn ætlar að vera svo haldinn valdhroka að fella tillöguna.