136. löggjafarþing — 68. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[19:39]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er mjög dapurlegur vitnisburður um ástandið á Íslandi, afleiðingar banka- og efnahagshrunsins og þeirra miklu og dýrkeyptu hagstjórnarmistaka sem gerð hafa verið á Íslandi undanfarnar vikur, mánuði, missiri og ár.

Þetta er líka dapurlegur vitnisburður um ráðleysi og verkleysi ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans. Hér er engin tilraun gerð til að afla tekna með því að þeir leggi meira af mörkum sem helst eru aflögufærir eins og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt til, t.d. með því að leggja þrepatengt skattaálag á hærri laun eða láta þá sem umtalsverðar fjármagnstekjur hafa leggja meira af mörkum. Með slíku hefði mátt hlífa almannatryggingakerfinu við niðurskurði, hætta við að selja inn á sjúkrahúsin og draga aðeins úr sársaukanum sem niðurskurður í heilbrigðis- og menntamálum veldur. Ekki er hægt að gefa þessum vinnubrögðum annað en falleinkunn. Þó að aðstæður séu erfiðar er það ekki afsökun fyrir slælegum vinnubrögðum.