136. löggjafarþing — 68. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[19:48]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég vildi vekja athygli á því að hér er verið að greiða atkvæði um 549 millj. kr. framlag til Fjármálaeftirlitsins á árinu 2008. Enn liggur ekkert fyrir í raun um hver kostnaður Fjármálaeftirlitsins, skilanefndanna eða annarra þeirra verka sem tengjast hruni viðskiptabankanna verður þannig að hér er bara um ágiskunartölu að ræða. Hver á síðan að bera þennan kostnað þegar upp verður staðið, eru það gömlu bankarnir, nýju bankarnir eða þjóðin? (Gripið fram í.)

Það væri líka fróðlegt að vita á hvaða taxta þeir verktakar sem eru núna inni í bönkunum að vinna við úttekt og stjórnun á þessum málum, þessum bönkum, eru að vinna nú þegar við horfum fram á launalækkanir og atvinnuleysi. (Forseti hringir.) Það skyldu þó ekki vera hæstu verktakataxtar þar á ferðinni? Ég vil að þessi atriði séu (Forseti hringir.) öll skoðuð mjög gaumgæfilega, herra forseti.