136. löggjafarþing — 68. fundur,  22. des. 2008.

minningarorð um Halldóru Eldjárn.

[19:54]
Horfa

Forseti (Sturla Böðvarsson):

Háttvirtir alþingismenn. Sú fregn barst í dag að Halldóra Eldjárn, fyrrverandi forsetafrú, hefði andast seint í gær, sunnudaginn 21. desember, 85 ára að aldri.

Halldóra Kristín Ingólfsdóttir Eldjárn fæddist 24. nóvember 1923 á Ísafirði. Foreldrar hennar voru hjónin Ólöf Sigríður Jónasdóttir húsmóðir og Ingólfur Árnason, verslunarmaður og framkvæmdastjóri.

Að loknu gagnfræðanámi á Ísafirði hóf Halldóra nám við Verslunarskóla Íslands, lauk þaðan verslunarprófi 1942 og fékkst síðan við skrifstofustörf í Reykjavík. Hún giftist Kristjáni Eldjárn þjóðminjaverði 1947.

Er Kristján Eldjárn var kosinn forseti Íslands í júnílok 1968 tók frú Halldóra við vandasömu hlutverki sem forsetafrú á Bessastöðum. Á skömmum tíma vann hún hug og hjörtu landsmanna með virðulegri og alúðlegri framkomu sinni. Á þeim 12 árum sem þau Kristján Eldjárn og frú Halldóra sátu Bessastaði fóru þau víða um landið og báru hróður Íslands um önnur lönd í opinberum heimsóknum. Á Bessastöðum var gestkvæmt í forsetatíð þeirra hjóna, eins og jafnan er þar, og héldu þau hjónin uppi þjóðlegri risnu með látleysi sem þjóðin mat mikils.

Rúmum tveimur árum eftir að þau Kristján og frú Halldóra kvöddu Bessastaði lést Kristján, haustið 1982, langt fyrir aldur fram. Frú Halldóra starfaði síðar í nokkur ár hjá Orðabók Háskólans. Þótti mikill fengur að starfi hennar þar sem annars staðar og vandvirkni hennar við brugðið.

Það er með þakklátum hug sem Alþingi og alþingismenn kveðja Halldóru Eldjárn, fyrrverandi forsetafrú, og minnast mikilvægra starfa hennar í þágu íslensku þjóðarinnar.

Ég bið hv. þingmenn að taka undir orð mín með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]