136. löggjafarþing — 68. fundur,  22. des. 2008.

þingfrestun.

[20:02]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir hönd okkar alþingismanna þakka hæstv. forseta fyrir gott samstarf á haustþingi. Ekki síst vil ég þakka fyrir gott samstarf við okkur þingflokksformenn.

Sú breyting hefur orðið á þinghaldinu á síðustu árum að starfsáætlun þingsins hefur staðist í öllum meginatriðum. Í ár hefur það þó ekki gengið eftir, þinghaldið hefur farið talsvert úr skorðum, vegna falls íslensku bankanna og áhrifa þess á efnahagslífið, eins og hæstv. forseti vék að áðan.

Þótt þingmenn deili um ýmis mál hér á hinu háttvirta Alþingi eru þó mörg mál sem góð samstaða næst um. Eitt slíkt mál, sem var afar mikilvægt að góð samstaða náðist um, eru lög um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008. Hæstv. forseti Alþingis náði samstöðu allra flokka á Alþingi um það mál. Það ber að þakka.

Ég þakka forseta hlý orð í garð okkar alþingismanna og óska honum og fjölskyldu hans gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Þá vil ég færa starfsfólki Alþingis þakkir fyrir góða aðstoð við okkur þingmenn og ánægjulegt samstarf á árinu og óska því gleðilegrar jólahátíðar.

Ég bið hv. alþingismenn að taka undir góðar óskir til hæstv. forseta og fjölskyldu hans og starfsfólks Alþingis með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]