136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

krafa um kosningar.

[13:46]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Um landið allt er nú að magnast krafan um að efnt verði til alþingiskosninga þegar í stað. Þúsundir landsmanna mæta til fjöldafunda og fylkja sér undir þessa kröfu. Innan þings hefur hún einnig verið reist. Vantrausti er lýst á ríkisstjórnina og þess krafist að hún fari frá. Þessu hefur meiri hlutinn hafnað og því er staðfest að ríkisstjórnin sem nú situr er á ábyrgð þingmanna Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins og aðeins þeirra.

Oddvitar ríkisstjórnarflokkanna hafa haft uppi tal sem í senn er hrokafullt og veruleikafirrt. Hæstv. forsætisráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, talar í óræðum myndlíkingum. Lýsti því í blaðaviðtali fyrir fáeinum dögum að hann væri hulinn reykskýi en teldi sig vera farinn að sjá í gegnum reykinn. Hæstv. utanríkisráðherra, formaður Samfylkingarinnar, kom fram í sjónvarpi, sagði ríkisstjórnina vera í miðjum björgunarleiðangri sem ekki mætti trufla með kosningum. Hún og forsætisráðherrann væru að moka skafl og fólk yrði að treysta þeim til þess verks.

Hæstv. forseti. Það gerir þjóðin ekki. Þetta er umboðslaust fólk sem hefur týnt sjálfu sér og er í forsvari fyrir trausti rúna ríkisstjórn. Ríkisstjórnin heykist á að sækja rétt okkar gagnvart ríkjum sem beita okkur kúgunarvaldi. Icesave-reikningarnir og aðrar erlendir skuldbindingar að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru svo risavaxnar að ómögulegt er að við fáum undir þeim risið. Samt koma ráðherrar fram fyrir þjóðina og segja allt í himnalagi. Slíkt aulatal misbýður hugsandi fólki.

Þessari ríkisstjórn er ekki treystandi til að semja við erlenda lánardrottna. Gagnvart þeim kiknar hún á sama tíma og hún fyrirskipar kinnroðalaust að skera niður við þurfandi fólk í landinu. Þjóðin fær nánast ekkert að vita um hvað verið er að sýsla í gamla bankakerfinu. Þar er allt sveipað leyndarhjúpi. (Forseti hringir.) Við sjáum þó gröftinn vella út. Hvers vegna þessi leynd? Hvers vegna fáum við ekki að vita um raunverulegar skuldir og eignir og hvað yfirleitt er að gerast? Við vitum það eitt (Forseti hringir.) að verið er að ráðstafa fjármunum okkar að okkur forspurðum. Hæstv. forsætisráðherra. Hvenær verður efnt til alþingiskosninga á Íslandi?