136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

ástæður Breta fyrir beitingu hryðjuverkalaga gegn Íslendingum.

[13:54]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Hér skal tekið undir að það skiptir ... (Gripið fram í.) Það er spurning að fá hljóð í þingsalinn ef fulltrúar vinstri flokkanna geta komið sér saman hér fyrir utan. Það skiptir vissulega máli fyrir þjóðina að fá sem gleggstar og bestar upplýsingar um það sem er að gerast.

Þann 6. október, fyrir rúmum hundrað dögum, voru sett hér neyðarlög. Í framhaldi af því eða þann 8. október settu Bretar sérstök hryðjuverkalög á Ísland og Landsbanka Íslands. Það hefur ekki fengist fullnægjandi skýring eða skilgreining á því hvað olli því að Bretar beittu þessum aðferðum. Hver var ástæða þess að breska ríkisstjórnin beitti hryðjuverkalögunum í þessu sambandi?

Hér er um grundvallarspurningu að ræða. Aðeins einn forustumaður í íslensku þjóðlífi segist vita það en það er Davíð Oddsson seðlabankastjóri. Aðrir hafa ekki gert þjóðinni grein fyrir vitneskju sinni með einum eða neinum hætti. Þess vegna hlýt ég að spyrja og tel mjög mikilvægt að þjóðin verði upplýst um það hvað varð þess valdandi að bresk stjórnvöld beittu Ísland og Landsbanka Íslands hryðjuverkalögum þann 8. október síðastliðinn. Hefur verið leitað svara við þeim spurningum við bresk stjórnvöld? Og sé svo, hverjir gerðu það? Hvaða spurninga var spurt?