136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

ástæður Breta fyrir beitingu hryðjuverkalaga gegn Íslendingum.

[13:56]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Þetta mál er að sjálfsögðu margrætt hér í þingsal og innan ríkisstjórnar og víðar. Við vitum ekki svarið við þessari spurningu, af hverju þessum lögum var beitt. Hins vegar eru í þeim mjög víðtækar valdbeitingarheimildir til breskra stjórnvalda til þess að gera það sem þeir kalla „að gæta hagsmuna sinna“. Við töldum og teljum að beiting þessara lagaákvæða hafi verið svívirðileg og höfum ekki skipt um skoðun í því efni þó að við höfum ekki fundið flöt á að höfða mál fyrir breskum dómstólum á þeirri forsendu.

Hvað Kaupþing varðar var þessum lögum ekki beitt gegn því. Það voru aðrar ráðstafanir gerðar gegn Kaupþingi og á þær er núna verið að láta reyna fyrir breskum dómstólum með stuðningi ríkisstjórnarinnar.